Umhverfisstefna Icelandair | Icelandair
Pingdom Check

Umhverfisstefna Icelandair

Icelandair og umhverfið

Það er stefna okkar að lágmarka umhverfisáhrif frá starfseminni og bæta stöðugt árangur í umhverfismálum. Það gerum við með því að nýta eins vel og kostur er þær auðlindir sem félagið hefur yfir að ráða. Að auki munum við tryggja að lagalegum kröfum og reglugerðum er varða umhverfismál sé fylgt.

Við vinnum að stöðugum umbótum á umhverfisstarfi okkar með því að:

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
  • minnka myndun úrgangs
  • nýta auðlindir skynsamlega
  • auka notkun á umhverfisvænum vörum
  • auka umhverfisvitund starfsmanna

Á jörðu

Við höfum gripið til ýmissa umhverfisvænna ráðstafana í starfsemi okkar á jörðu niðri, í skrifstofuhaldi og á öðrum rekstrarsviðum. Þar leggjum við áherslu á endurvinnslu og minnkun pappírsnotkunar. Öll raforka, sem við notum, er fengin frá endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsafl og jarðhitaorka) og öll ljós eru tengd við tímarofa svo ekki logar á þeim alla nóttina þó einhver gleymi að slökkva.

Í allmörg ár höfum við boðið viðskiptavinum að nota rafmiða (e-tickets) og vonumst við til að pappírsmiðar verði úr sögunni innan tíðar. Þess utan hafa æ fleiri þættir starfseminnar og samskipta við viðskiptavini færst af pappír yfir á rafrænt form á Netinu. Þessi samskipti um tölvur eru þægilegri fyrir viðskiptavini og mun umhverfisvænni þar sem dregið er til muna úr allri pappírsnotkun.

Starfsmenn flugþjónustunnar hafa gripið til samræmdra aðgerða sem miða að því að draga úr eldsneytisnotkun, t.d. að takmarka eins og kostur er akstur á flughlaði og lausagang tækja. Þar sem því verður við komið er reynt að skipta út tækjakosti sem gengur fyrir eldsneyti, fyrir tæki sem knúin eru raforku.

Í lofti

Við leggjum metnað í að draga úr mengandi útblæstri frá flugvélum. Sparneytnar flugvélar eru lykilatriði þegar draga á úr útblæstri kolefnis. Með þetta í huga höfum við gert fjölmargar breytingar bæði í rekstri og á flugvélum okkar á undanförnum árum.

Sem dæmi má nefna að allar okkar vélar eru nú útbúnar vængflipum sem draga úr vindmótstöðu og minnka eldsneytisnotkun – og um leið útblástur.

Þegar aðstæður leyfa koma vélar Icelandair inn til lendingar í aðflugi með jafnri og stöðugri lækkun. Að auki beitum við sérstökum aðferðum til að draga úr hávaða við aðflug. Allt þetta minnkar hávaðamengun, sparar eldsneyti og minnkar útblástur.

Í akstri á flugbrautum er það regla hjá okkur að notast við einn hreyfil, þar sem aðstæður leyfa.

Að lokum hafa ráðstafanir verið gerðar um borð til að gera reksturinn umhverfisvænni, með því að draga úr pappírsnotkun, selja máltíðir á öllum flugleiðum og fækka hlutum í býtibúri (glösum, diskum, matseðlum, tímaritum o.s.frv.).