Boeing 737 MAX vélin brennir 37% minna eldsneyti og hljóðmengunin minnkar um heil 40% sé hún borin saman við forvera sína, Boeing 757-200 vélarnar sem eru í meirihluta í flota Icelandair. Þá notar hún 14% minna en Boeing 737 NG vélin. Þrátt fyrir þetta eru vélarnar mun öflugri en áður. Það helgast bæði af breyttri loftaflfræðilegri hönnun skrokks og vængja (klofnir vængendar þar á meðal) og byltingarkenndri hönnun hreyflanna sjálfra.
Hreyfilblöðin eru gerð úr ofursterku kolefni sem fléttað er saman með þrívíddartækni. Þannig verður hver hreyfill meira en 200 kílóum léttari en áður sem sparar eldsneyti og dregur til muna úr mengun.