Pingdom Check

Vatnajökull er einstakur

Það er alltaf jafn magnað að sjá Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, þar sem hann steypist niður snarbrattar fjallshlíðarnar á suðausturlandinu. Þá sjón þekkja allir Íslendingar enda gnæfir Vatnajökull yfir hringveginum frá Öræfum austur í Hornafjörð.

Jökullinn þekur 8% af flatarmáli Íslands og er heilir 1000 metrar á þykkt þar sem hann er þykkastur. Ísmagnið er slíkt að væri dreift úr jöklinum yfir allt landið, væri 30 metra þykkt íslag yfir öllu. Við erum heppin að hann skuli láta sér átta prósentin duga.

Vatnajökull og umhverfi hans mynda Vatnajökulsþjóðgarð, stærsta þjóðgarð í Evrópu, sem kom á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í júlí 2019. Landslag þjóðgarðsins einkennist af því að hafa verið mótað af stórkostlegum náttúruöflum: ís, jarðskorpuhreyfingum og rofi vatns og vinda.

Upplifðu fegurð jökulsins

Vatnajökull á sér stað í hjarta Íslendinga. Okkur hjá Icelandair langar að kynna undur Vatnajökuls fyrir umheiminum og bjóðum því farþegum að stíga um borð í jökul og kynnast Íslandi strax við upphaf ferðar.

En Vatnajökull sér eldheitt leyndarmál. Þessi ógnarstóra ísbreiða er beint ofan á einu virkasta gossvæði í heiminum og getur sú sambúð, eins og Íslendingar vita mætavel, orðið ansi dramatísk á köflum.

Þar mætast eldur og ís

Fegurð Vatnajökuls er óviðjafnanleg. Við jökulröndina fljóta ísbláir jakar á lónum og í iðrum jökulsins eru ægifagrir íshellar sem heilla alla sem þá heimsækja með safírblárri birtu sinni.

Svo við leyfum nú eðlisfræðinni að spilla dulúðinni aðeins, þá er jökulísinn raunar glær. Hann virðist aðeins blár vegna þess að bláar bylgjulengdir dagsbirtunnar berast alla leið gegnum þykkan ísinn en þær rauðu og gulu gera það ekki. Jökulís er þó sérlega þéttur í sér og bráðnar mun hægar en venjulegur ís – upplagður fyrir þá sem eru lengi að sötra drykki.