Pingdom Check
07/11/2025 | 7:00 AM

Millilandaflug í 80 ár

Núna í sumar fögnum við þeim áfanga að 80 ár eru liðin frá því að við hófum millilandaflug frá Íslandi.

Þann 11. júlí 1945 tók á loft fyrsta farþegaflugvélin sem á leið var í millilandaflug frá Íslandi. Katalínuflugbáturinn svokallaði flaug í 7000 feta lofthæð frá Reykjavík til Largs Bay í Skotlandi. Flugið tók þá sex klukkutíma.

Í áhöfn flugsins voru fjórir meðlimir, flugstjóri var Jóhannes R. Snorrason, og aðstoðarflugmaður Smári Karlsson. Sigurður Ingólfsson var flugvélstjóri áhafnarinnar og Jóhann Gíslason fjarskiptamaður. Farþegar voru flestir verslunarmenn sem héldu til Bretlands í leit að viðskiptatækifærum.

Þann 22. ágúst á sama ári flaug svo Katalínu-flugvélin til Largs í Skotlandi, og átti þar þriggja daga viðveru vegna slæmra veðurskilyrða. Vélin hélt svo þaðan til Kaupmannahafnar, og var lent þar þann 25. ágúst. Haldið var svo aftur til Íslands í gegnum Largs þann 27. ágúst.

Margt hefur breyst í fluginu síðan haldið var í þessar ferðir fyrir 80 árum, en nú til dags taka flugleiðir okkar til Glasgow og Edinborgar í Skotlandi aðeins um tvo og hálfan klukkutíma (við hefjum flug til Edinborgar þann 12. september á þessu ári). Hlutverk Icelandair er hins vegar enn hið sama, að tengja Ísland við umheiminn, en flugið gegnir þar lykilhlutverki.

Viltu kynna þér sögu okkar nánar? Smelltu þá hér: Saga Icelandair

Á myndinni eru áhafnarmeðlimir Katalínuflugbátsins í ágúst 1945.

Frá vinstri: Magnús Guðmundsson flugmaður, Jóhann Gíslason fjarskiptamaður, Sigurður Ingólfsson flugvélstjóri og Jóhannes R. Snorrason flugstjóri.

Katalínu-flugvélin TF-ISP við akkeri í Kaupmannahöfn. Vélin var þekkt undir viðurnefninu „Gamli Pétur“.