Pingdom Check

Class Up-skilmálar Icelandair

  1. Eftirfarandi skilmálar („skilmálar“, „þessir skilmálar“) gilda um tilboð („tilboð“) sem farþegi („farþegi“) gerir Icelandair („Icelandair“) til að fá farmiða sinn mögulega uppfærðan frá því farrými sem upphaflega var bókað hjá Icelandair og upp um eitt eða tvö farrými („uppfæra“, „uppfærsla“, „uppfærður farmiði“).
  2. Farþegi verður að hafa náð lögaldri og geta skrifað undir lagalega bindandi samning. Farþegi telst geta komið fram fyrir hönd þeirra einstaklinga sem nefndir eru í tilboði og skuldbundið þá einstaklinga þessum skilmálum. 
  3. Farþegi getur aðeins lagt fram eitt tilboð fyrir hvert flug samkvæmt bókuðu fari og skal tilboð ávallt gert og greitt með greiðslukorti eða Vildarpunktum.
  4. Á forsendum tilboðs sem farþegi hefur, í samræmi við bókun hjá Icelandair, hvort sem bókað er beint hjá Icelandair eða óbeint á annan hátt, lagt fram við Icelandair skal athuga mögulega uppfærslu á farmiðum þeirra einstaklinga sem nefndir eru í tilboði, að uppfylltum þessum skilmálum.
  5. Icelandair áskilur sér rétt til að ákveða á eigin forsendum hvort tilboði skuli tekið og fullyrðir ekki að nokkur farmiði verði uppfærður, hvort sem sæti eru laus á því farrými sem tilboð er gert til eður ei. 
  6. Farþega er frjálst að breyta tilboði eða draga til baka, hafi Icelandair ekki þegið tilboð og greiðsla ekki verið gjaldfærð af greiðslukorti eða Vildarpunktar innheimtir. Það skal gert áður en 3 virkir dagar eru í áætlaðan brottfarartíma. Ef tilboði farþega er tekið áður en farþegi breytir því eða dregur til baka er farþega lögum samkvæmt skylt að greiða það verð eða þann Vildarpunktafjölda sem gefinn er upp í tilboði fyrir breytingu.
  7. Tilboð sem uppfyllir þessa skilmála skal teljast gilt („gilt tilboð“) frá því að það er fyrst lagt fram við Icelandair og fellur það úr gildi á áætluðum brottfarartíma. Seinki viðkomandi flugi fellur tilboð úr gildi þegar dyrum vélar hefur verið lokað vegna brottfarar. Tilboð telst, auk þess, ekki lengur gilt dragi farþegi það til baka.
  8. Sé farþegi fluttur með öðru flugi Icelandair en bókað var, og sé ástæða þess önnur en fjarvist farþega eða að farþegi gefi frá sér bókun á annan hátt, skal hvert það tilboð sem gert var vegna upphaflegrar bókunar yfirfærast á hinn nýja farmiða, að því tilskildu að sæti séu laus á viðkomandi farrými og flogið sé með Icelandair.
  9. Icelandair getur gengið að tilboði farþega hvenær sem er, teljist tilboð gilt á þeim tíma. Gangi Icelandair að tilboði verður greiðsla gjaldfærð af greiðslukorti eða Saga Club reikningi um leið og gengið er að tilboði og Icelandair mun gefa út nýjan farmiða sem endurspeglar uppfærslu fyrir hvern farþega sem nefndur er í upphaflegri bókun. Í þeirri heildarupphæð sem er gjaldfærð, hvort sem hún er innheimt á greiðslukort eða í Vildarpunktum, eru innifalin öll fyrirfram greidd gjöld og skattar (ef einhver eru) sem leggjast á uppfærðan farmiða. Farþega verður tilkynnt sú heildarupphæð sem greiðast skal áður en tilboð er lagt fram. Farmiða sem Icelandair hefur uppfært er eingöngu hægt að breyta í samræmi við skilmála farseðlakaupa og flutningsskilmála. 
  10. Eftir að tilboð hefur verið samþykkt og greiðsla gjaldfærð, á greiðslukort eða í Vildarpunktum af Saga Club reikningi, eru endurgreiðsla eða vöruskil eða -skipti ekki möguleg nema við eftirfarandi aðstæður:
      1. Ef Icelandair getur, vegna ástæðna sem ekki má rekja til farþega sjálfs, ekki flutt farþega á Saga farrými er sú upphæð sem greidd var endurgreidd. Fer endurgreiðsla fram í sama gjaldmiðli og með sama hætti og greiðsla fór fram. Atvik og endurgreiðslur samkvæmt grein þessari skapa ekki rétt farþega til frekari bóta af hálfu Icelandair.
      2. Ef farþegi fær endurgreitt á grundvelli forfallatryggingar félagsins.
  11. Ef samþykkt er að veita endurgreiðslu verður hún innt af hendi í þeim gjaldmiðli sem notaður var til að greiða uppfærslu farmiða. Ef uppfærsla var greidd með Vildarpunktum verða Vildarpunktar bakfærðir á Saga Club reikning viðkomandi farþega. 
  12. Uppfærslur skulu ávallt greiddar með korti eða Vildarpunktum. Ekki er hægt að blanda saman greiðsluleiðunum og ekki er mögulegt að skipta um greiðsluleið eftir að tilboð hefur verið samþykkt. Almennir skilmálar Icelandair Saga Club gilda um notkun Vildarpunkta.
  13. Við uppfærslu taka skilmálar eins og reglur um forföll og breytingagjöld farmiða ekki breytingu. Farþegi safnar Vildarpunktum og Fríðindastigum út frá upprunalega fargjaldinu. Aukin farangursheimild á eingöngu við um þann fluglegg sem er uppfærður, en ekki aðra leggi sem keyptir hafa verið á sama tíma.
  14. Ef farþegi breytir bókun sinni ber Icelandair ekki að flytja farþega á því farrými sem uppfært var til nema farþegi greiði fyrir uppfærslu farmiða samkvæmt almennum skilmálum flugfélagsins um breytingar og þeim reglum og skilmálum sem gilda um þá tegund farmiða sem upphaflega var keypt.
  15. Icelandair ábyrgist ekki að hægt sé að taka frá ákveðin sæti fyrir þá farþega sem gera tilboð sem gengið er að og fá farmiða sína uppfærða.
  16. Icelandair áskilur sér rétt til að lagfæra þessa skilmála, eða breyta á annan hátt, á eigin forsendum og án fyrirvara. Nema að því leyti sem gert er ráð fyrir í setningunni hér að framan skal það ekki vera bindandi fyrir Icelandair ef þessum skilmálum er breytt, þeir lagfærðir eða felldir úr gildi nema að það sé gert skriflega og að fulltrúi Icelandair, sem hefur umboð til, skrifi undir.
  17. Um þessa skilmála gilda einnig flutningsskilmálar Icelandair, notendaskilmálar vefsíðu Icelandair, og stefna Icelandair um öryggi og friðhelgi, sem hægt er að nálgast á www.icelandair.com.