Endurgreiðsla afbókaðra miða | Icelandair
Pingdom Check

Endurgreiðsla afbókaðra miða

Ef þú sérð þér ekki fært að nýta bókaðan flugmiða, og þarft að afbóka, gætirðu átt rétt á endurgreiðslu. Rétturinn til endurgreiðslu fer eftir fargjaldareglum viðkomandi fargjaldaflokks, en í sérstökum tilfellum gætu aðrar reglur átt við.

Athugið: Þessir skilmálar eiga eingöngu við um flug á vegum Icelandair. Ef þú keyptir miðann hjá þriðja aðila, t.d. söluaðila á netinu eða á ferðaskrifstofu, gilda aðrir skilmálar. Frekari upplýsingar um þá skilmála skal nálgast hjá viðkomandi þriðja aðila.

Forfallagjald

Viðskiptavinum Icelandair býðst að greiða forfallagjald þegar þeir kaupa flugmiða.

Greiðsla forfallagjalds tryggir endurgreiðslu á þeim hluta fargjalds sem greiddur hefur verið til Icelandair, og fæst annars ekki endurgreiddur, ef viðskiptamaður kemst ekki í fyrirhugað flug, séu skilyrði þessara skilmála uppfyllt. Komist farþeginn ekki í ferðina endurgreiðir Icelandair viðkomandi farseðla. Ef farþegi þarf að breyta ferðaáætlun eftir að ferð er hafin, mun Icelandair endurgreiða viðkomandi hluta farseðils (þann hluta farseðils sem hefur ekki verið notaður) eða breytingagjald (en ekki fargjaldamismun).

Nauðsynlegt er að framvísa undirrituðu læknisvottorði. Við fráfall náins fjölskyldumeðlims þarf að framvísa dánarvottorði. Ef forfallagjald hefur ekki verið greitt, stofnast ekki réttur til endurgreiðslu þó að læknisvottorði/dánarvottorði sé framvísað. Ef farþeginn sjálfur andast í ferðalaginu, endurgreiðum við miðann ef dánarvottorði er framvísað.

Forfallagjaldið bætir ekki ýmis þjónustugjöld s.s. bókunargjöld og önnur aukagjöld. Forfallagjaldið tryggir eingöngu endurgreiðslu vegna fargjalda sem greidd hafa verið til Icelandair. Það tryggir ekki endurgreiðslu vegna hótelgistinga og bílaleigubíla sem bókaðir eru á www.icelandair.com/is, svo að dæmi séu tekin.

Forfallagjald er í boði að kaupa um leið og fargjald eða staðfestingargjald er greitt eða í gegnum e-miða allt að 36 tímum eftir að flugmiðinn hefur verið bókaður.

Endurgreiðsla

Greiðsla forfallagjalds tryggir endurgreiðslu á þeim hluta fargjalds sem greiddur hefur verið til Icelandair, og fæst annars ekki endurgreiddur, ef viðskiptamaður kemst ekki í fyrirhugað flug vegna:

a) dauðsfalls, skyndilegra og alvarlegra veikinda eða slyss sem krefst sjúkrahússvistar hans eða maka hans (hvort sem um er að ræða maka í hjónabandi eða skráðri sambúð), barna eða barnabarna viðskiptamanns, foreldra hans eða tengdaforeldra, afa hans, ömmu eða systkina.

b) verulegs eignatjóns á heimili hans eða í einkafyrirtæki sem gerir nærveru hans nauðsynlega (lögregluskýrsla liggi fyrir).

Framangreind tilvik skulu vera þess eðlis að óhjákvæmilegt sé að afturkalla áður gerða pöntun. Forfallagjald er aldrei endurgreiðanlegt.

Greiðsla forfallagjalds tryggir ekki mögulegan fargjaldamismun vegna breytingar á dagsetningu flugs eftir að ferð er hafin.

Gildistaka

Skilyrðin fyrir því að viðskiptamaður öðlist rétt á endurgreiðslu eru eftirfarandi:

  1. að forfallagjald sé greitt;
  2. að viðskiptamanni sé ekki kunnugt um tjón/veikindi eða hafi grun um yfirvofandi tjón/veikindi sem stofnar til endurgreiðsluréttar, þegar forfallagjaldið er greitt.

Endurgreiðsluréttur gildir frá þeim tíma sem tilgreindur er í kvittun fyrir greiðslu þess og fram að brottför.

Undanskilin áhætta

Endurgreiðsluréttur myndast ekki í eftirfarandi tjónstilvikum:

  1. tjón sem verða vegna meiðsla sem menn veita sjálfum sér af ásetningi;
  2. tjón sem verða vegna veikinda sem tengja má neyslu áfengra drykkja eða lyfja, nema slík lyf séu tekin samkvæmt læknisráði, en þó að frátöldum lyfjum vegna læknismeðferðar sem stafa af notkun ávana- og fíkniefna;
  3. tjón sem beint eða óbeint eru af völdum kjarnabreytingar, jónandi geislunar, mengunar af geislavirkum efnum, kjarnaeldsneytis og kjarnaúrgangsefnis eða af völdum styrjaldar, innrásarhernaðaraðgerða, borgararósta, uppreisnar, uppþots eða svipaðra aðgerða. Sama gildir um tjón sem beint eða óbeint eru af völdum jarðskjálfta, eldgosa, flóða, skriðufalla eða annarra náttúruhamfara;
  4. tjón sem verður vegna niðurfellingar eða seinkunar áætlunarferðar;
  5. tjón sem verða vegna sjúkdóms sem viðskiptamaður var haldinn er forfallagjald var greitt, eða meðferðar hans vegna slíks sjúkdóms.

Forfallagjaldið nær ekki yfir endurgreiðslu þjónustugjalda s.s. bókunargjalda, eða annarra aukagjalda.

Ráðstafanir vegna tjóns – Endurgreiðsla

Tilkynna skal tjón þegar í stað og framvísa læknisvottorði eða lögregluskýrslu ásamt kvittun fyrir greiðslu flugmiða.

Endurgreiðsla fer fram innan 45 daga eftir að fullnægjandi sannanir hafa borist fyrir endurgreiðsluskyldu Icelandair samkvæmt skilmálum þessum og unnt er að ákveða fjárhæð endurgreiðslu. Vottorð sem og önnur gögn sem Icelandair kann að krefjast til að geta lagt mat á endurgreiðsluskyldu sína ber viðkomandi að leggja fram á eigin kostnað.

Ef viðskiptamaður á jafnframt rétt á bótum úr vátryggingu vegna sama tjónsatburðar greiðir Icelandair aðeins hlutfallslegar bætur.

Svik - Rangar upplýsingar

Skýri viðskiptamaður sviksamlega frá eða leyni atvikum er skipta máli um endurgreiðsluskyldu Icelandair glatar hann rétti sínum á hendur félaginu.

Heimili og varnarþing

Heimili Icelandair ehf. og varnarþing er í Reykjavík. Mál, sem rísa kunna vegna endurgreiðslu samkvæmt skilmálum þessum, skal reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Breytingar á áætlun

Áætlaður flugtími sem birtur er á flugáætlun gæti breyst frá dagsetningu birtingar og þar til farþegi fer í flugið. Flugfélagið ábyrgist ekki að flugið fari á áætluðum flugtíma og flugtíminn er ekki hluti af samningi farþega við flugfélagið.

Áður en flugfélagið samþykkir bókun farþega, upplýsir það um áætlaðan flugtíma á þeirri stundu sem bókunin fer fram og sá tími kemur fram á flugmiða. Ef farþegi veitir réttar samskiptaupplýsingar, mun flugfélagið reyna að gera farþega vart um breytingar á flugtíma. Ef áætlaður flugtími er færður um að minnsta kosti fimm klukkutíma frá upphaflegum brottfarartíma, breytingin átti sér stað eftir að farþegi bókaði miðann og farþegi sættir sig ekki við slíka breytingu, á hann/hún rétt á endurgreiðslu í samræmi við neðangreind atriði.

Ef flugfélagið aflýsir flugi, tekst ekki að halda sig jafn nærri flugáætlun og hægt er að ætlast til, lendir ekki á áfangastað farþega, hvort sem um er að ræða lokaáfangastað eða millilendingu í einn dag eða fleiri á Íslandi (e. stopover), eða veldur því að farþegi missir af tengiflugi sem viðkomandi er bókaður í á sama miða, er endurgreitt samkvæmt eftirfarandi reglum:

a) Ef enginn hluti miðans hefur verið notaður, er fargjaldið endurgreitt (þar er undanskilið bókunargjaldið, sem fæst ekki endurgreitt);

b) Ef hluti miðans hefur verið notaður, verður fjárhæð endurgreiðslu ekki lægri en mismunurinn á milli þess fargjalds sem greitt hefur verið og þess fargjalds sem greitt var fyrir þann hluta miðans sem þegar hefur verið notaður.

Almenn ákvæði

Farmiðinn gildir sem fullnægjandi sönnun um samning milli flugfélagsins og þess farþega sem er nafngreindur á miðanum. Flugfélagið flytur aðeins þann farþega sem nafngreindur er á miðanum og farþegi gæti verið beðinn um að framvísa viðeigandi skilríkjum.

Farmiðinn er óframseljanlegur.

Sumir farmiðar eru seldir á afsláttarkjörum og mögulegt er að slíkir miðar fáist ekki endurgreiddir, eða aðeins endurgreiddir að hluta. Farþegar ættu að velja þann fargjaldaflokk sem best hentar þeirra þörfum. Farþegar gætu líka viljað ganga úr skugga um að þeir hafi viðhlítandi tryggingar, ef þeir skyldu þurfa að afbóka miðann.

Ef farþegi vill gera breytingar á einhverjum þætti ferðalagsins, verður viðkomandi að setja sig í samband við flugfélagið fyrirfram. Nýtt fargjald verður reiknað í samræmi við fargjaldareglur og farþega verður gefinn kostur á að annaðhvort samþykkja nýja verðið eða halda sig við upprunalega miðann. Ef farþegi gerir ekki nauðsynlegar breytingar, eða fer ekki í flugin sem birtast á farmiðanum í þeirri röð sem þau birtast, verður miði farþega flokkaður sem „no-show“. Í slíku tilfelli er öll þau flug sem framundan eru á miðanum afbókuð og miðinn gerður ógildur.

Hvert fer endurgreiðsla?

Flugfélagið endurgreiðir farmiða, eða þann hluta farmiða sem ekki hefur verið notaður, í samræmi við fargjaldareglur og gjaldskrár eins og hér segir:

Með þeim undantekningum sem koma fram í þessum skilmálum, skal flugfélagið endurgreiða þeim einstaklingi sem greiddi fyrir miðann, gegn framvísun fullnægjandi sannana fyrir að slík greiðsla hafi átt sér stað.

Ef að annar aðili en sá sem greiddi fyrir miðann er nafngreindur á miðanum, og á miðanum koma fram skilyrði við endurgreiðslu, endurgreiðir flugfélagið aðeins þeim aðila sem borgaði fyrir miðann.

Óumbeðin endurgreiðsla

Ef flugfélagið aflýsir flugi, tekst ekki að halda sig jafn nærri flugáætlun og hægt er að ætlast til, lendir ekki á áfangastað farþega, hvort sem um er að ræða lokaáfangastað eða millilendingu í einn dag eða fleiri á Íslandi (e. stopover), eða veldur því að farþegi missir af tengiflugi sem viðkomandi er bókaður í á sama miða, er endurgreitt samkvæmt eftirfarandi reglum:

Ef enginn hluti miðans hefur verið notaður, er fargjaldið endurgreitt;

Ef hluti miðans hefur verið notaður, verður fjárhæð endurgreiðslu ekki lægri en mismunurinn á milli þess fargjalds sem greitt hefur verið og þess fargjalds sem greitt var fyrir þann hluta miðans sem þegar hefur verið notaður.

Beiðni um endurgreiðslu

Ef farþegi á rétt á endurgreiðslu miða af ástæðum öðrum en þeim sem tilgreindar eru hér að ofan, miðast fjárhæð endurgreiðslu við eftirfarandi:

Ef enginn hluti miðans hefur verið notaður, er endurgreitt í samræmi við fargjaldareglur, að frádregnum þjónustugjöldum og afbókunargjaldi;

Ef hluti miðans hefur verið notaður, verður upphæð endurgreiðslu jöfn mismuninum á milli þess fargjalds sem greitt hefur verið og þess verðs sem gildir um þann hluta miðans sem þegar hefur verið notaður, í samræmi við fargjaldareglur og að frádregnum þjónustugjöldum og afbókunargjaldi.

Réttur til að hafna beiðni um endurgreiðslu

Flugfélagið getur hafnað beiðni um endurgreiðslu þegar beiðnin er send eftir að miðinn er fallinn úr gildi.

Flugfélagið getur hafnað beiðni um endurgreiðslu á miða, sem lögð hefur verið fram til flugfélagsins eða opinberra starfsmanna sem sönnunargagn um þá ætlun að yfirgefa tiltekið land, nema að farþegi geti veitt flugfélaginu fullnægjandi sannanir fyrir því, að mati flugfélagsins, að hann/hún hafi leyfi til þess að vera áfram í landinu eða að hann/hún muni yfirgefa landið á vegum annars flugfélags eða með öðrum samgöngumáta.

Gjaldmiðill

Um allar endurgreiðslur gilda lög stjórnvalda, reglur og reglugerðir eða tilskipanir þeirra landa þar sem miðinn var upphaflega keyptur og í því landi þar sem endurgreiðsla fer fram. Í samræmi við áðurgreind ákvæði, eru endurgreiðslur að öllu jöfnu veittar með sama hætti og í sama gjaldmiðli og miðinn var keyptur. Þó kann að vera að endurgreitt verði í öðrum gjaldmiðli samkvæmt ákvörðun flugfélagsins.

Hver getur veitt endurgreiðslu?

Endurgreiðsla samkvæmt beiðni verður aðeins veitt af því flugfélagi sem upphaflega gaf út miðann eða af viðurkenndum umboðsmönnum þess félags.