Skilmálar Saga Club Icelandair | Icelandair
Pingdom Check

Icelandair Saga Club skilmálar

Einstaklingar 12 ára og eldri geta sótt um aðild að Saga Club, ekki fyrirtæki, félagasamtök eða aðrar stofnanir. Með því að sækja um aðild  heimila umsækjendur Icelandair að nota allar skráðar upplýsingar, þ.m.t. tölvupóstfang, til markaðssetningar og almannatengsla fyrir Icelandair, skyld félög og aðila sem Saga Club velur til samstarfs. Skoðast samþykki á þessum skilmálum sem fyrirfram samþykki í skilningi 1. mgr. 46. gr fjarskiptalaga, en umsækjandi getur afturkallað þetta samþykki á síðari stigum. 

Umsækjandi þarf að skrá fullt nafn á umsóknina, þ.e. fornafn, millinafn (ef við á) og eftirnafn, eins og viðkomandi er skráður í Þjóðskrá. Umsókn er aðeins tekin gild ef hún er að fullu útfyllt. Umsækjandi verður sjálfur að undirrita umsóknina, svo og tilkynningar um breytingu á heimilisfangi, símanúmeri o.þ.h. Hver korthafi má aðeins eiga einn Vildarreikning.

Hægt er að skrá sig í Icelandair Saga Club á vefsíðu Icelandair.

Umsækjandi byrjar að safna Vildarpunktum við skráningu í klúbbinn. Þó er hægt að fá Vildarpunkta fyrir flug sem flogin eru allt að 12 mánuðum fyrir skráningu í Saga Club.

Einstaklingar yngri en 18 ára þurfa samþykki foreldris eða forráðamanns fyrir skráningu í Saga Club og til þess að njóta þeirra fríðinda sem felst í aðild að Saga Club. Með skráningu einstaklinga yngri en 18 ára í Saga Club staðfesta viðkomandi einstaklingar að samþykki foreldris eða forráðamanns liggi fyrir.

Vildarpunktar og Fríðindastig

Vildarpunkta er hægt að nota sem greiðslu í punktaúttekir hjá Saga Club. Fríðindastig segja eingöngu til um hvort korthafi fái aðild að Saga Silver, Saga Gold og/eða hvort kort fáist endurnýjað. 

Safna þarf 40.000 Fríðindastigum á 12 mánaða tímabili til að fá aðild að Saga Silver og 80.000 Fríðindastigum á 12 mánaða tímabili til að fá aðild að Saga Gold.

Sagakort

Allir Saga Club félagar fá félaganúmer við skráningu í Saga Club. Saga Club númerið er 10 stafa og er skráð framan á Saga Club kort ásamt nafni korthafa. Korthafi telst sá sem kortið er stílað á. Honum einum er heimilt að nota kortið. Kortið er ekki greiðslukort. Kortið er og verður eign Icelandair. 

Saga Blue félagar geta pantað Saga Blue kort gegn vægu gjaldi með því að innskrá sig á sinn Saga Club reikning. Það tekur að jafnaði 7-8 virka daga að berast til viðkomandi innan Íslands en gera má ráð fyrir 10-21 virkum dögum utan Íslands. Einnig er hægt að hafa samband við okkur og panta nýtt kort. 

Saga Silver kort gildir í 12 mánuði. Nái Saga Silver korthafi 30.000 Fríðindastigum á 12 mánaða gildistíma kortsins fær hann Saga Silver kortið endurnýjað. 

Saga Gold kort gildir í 12 mánuði. Nái Saga Gold korthafi 70.000 Fríðindastigum á 12 mánaða gildistíma kortsins fær hann Saga Gold kortið endurnýjað. 

Ef félagi í klúbbnum breytir um nafn þarf viðkomandi að óska skriflega eftir slíkri breytingu við Saga Club. Framvísa þarf skjali frá Þjóðskrá sem staðfestir nafnabreytinguna.

Korthafi telst sá sem kortið er stílað á. Honum einum er heimilt að nota kortið. Kortið er ekki greiðslukort. Kortið er og verður eign Icelandair.

Ef Sagakort glatast er hægt að panta nýtt kort á á vefsíðunni gegn vægu gjaldi.  Það tekur að jafnaði 7-8 virka daga að berast til viðkomandi innan Íslands en gera má ráð fyrir 10 – 21 virkum dögum utan Íslands. Einnig er hægt að hringja í síma 5050100 eða senda póst á okkur og panta nýtt kort.

Punktasöfnun

Saga Club félagar geta safnað Vildarpunktum á margvíslegan hátt svo sem fyrir flug með Icelandair, vörur um borð, hótelgistingar, bílaleigur, með kreditkortum sem bjóða upp á Vildarpunktasöfnun eða með fjölmörgum samstarfsaðilum Saga Club. Öll söfnun fer svo inn á Saga Club reikninginn þinn sem hægt er að skoða á punktayfirlitinu. Félagar geta skráð Vildarpunkta allt að 12 mánuði aftur í tímann fyrir flug sem þeir hafa flogið og það sama á við um aðra vöru eða þjónustu sem veita Vildarpunkta. 

Áætlunarflug Icelandair, Alaska Airlines og JetBlue gefur bæði Vildarpunkta og Fríðindastig. Viðskipti við samstarfsaðila gefa eingöngu Vildarpunkta. Einungis miðar sem keyptir eru á skráðu fargjaldi gefa punkta. Punktafjöldi miðast við það fargjald sem keypt er og korthafi greiddi fyrir en ekki við farrýmið sem korthafi notar í reynd þ.e. ef korthafi er uppfærður milli farrýma.  Hægt er að fá allar upplýsingar um punktasöfnun hér.

Engir Vildarpunktar fást fyrir miða sem gefnir eru út samkvæmt sérstökum samningum eða tilboðum. Vildarpunktar og Fríðindastig ávinnast fyrir flugferðir í áætlunarflugi Icelandair sem korthafi sjálfur fer í óháð hver greiðir fyrir flugfarið. Engir punktar eru veittir fyrir farseðla sem eru keyptir en eru síðan ekki notaðir. Félagi í Saga Club fær punkta fyrir flug sem hann flýgur sjálfur en fær ekki punkta fyrir flugmiða sem hann kaupir fyrir aðra.

Í hvert skipti sem flugfar er pantað á áætlunarleiðum Icelandair eða þjónusta hjá samstarfsaðilum þarf að framvísa Sagakortinu eða gefa sölumanni upp Sagakortsnúmerið og nafn eins og það er skráð á kortinu. Kortanúmerið verður að skrá við allar bókanir því annars skila punktar sér ekki á Saga Club reikninginn. Framvísa þarf Sagakortinu á afgreiðslustað bílaleigu, við innritun á hótel og þegar verslað er í Saga Shop.  

Erfðir

Við andlát félaga í Icelandair Saga Club getur einn lögerfingi hans sótt um aðild að Saga Club og fengið Vildarpunkta þess látna flutta yfir á sinn Saga Club reikning.

Til þess að sækja um að erfa Vildarpunkta skal viðkomandi senda eftirfarandi:

  • Staðfestingu, t.d. frá sýslumanni, til Saga Club um að hann sé lögerfingi hins látna eða sitji í óskiptu búi. 
  • Ef um fleiri en einn lögerfingja er að ræða verður að fylgja samþykki frá öðrum lögerfingjum fyrir þeim eina sem á að erfa Vildarpunktana. 
  • Á skjalinu er nauðsynlegt að nöfn og kennitölur beggja aðila komi fram. 

Punktastaða

Til að sjá punktastöðuna sína þurfa félagar að skrá sig inn á síður Saga Club með notendanafni og lykilorði.

Hafi korthafi ekki aðgang að Netinu getur hann haft samband við Þjónustuver Icelandair í síma 5050100 og fengið punktayfirlit sent í pósti eða sent póst á okkur og óskað eftir punktayfirliti.

Punktar fyrir flug með Icelandair eru skráðir 3 sólarhringum eftir flug en punktar frá samstarfsaðilunum eru skráðir mánaðarlega.

Korthöfum er eindregið ráðlagt að fara vel yfir yfirlitin og athuga hvort allar flugferðir og þjónusta hafa verið skráðar. Til öryggis ætti korthafi ávallt að geyma alla flugmiða, brottfararspjöld og kvittanir.

Punktanotkun

Athugið að frá og með 27. febrúar 2018, hafa Punktar og peningar tekið við af Vildarbókunum. Þeir sem ætla að nýta sér Félagamiða American Express eða Vinamiða Arion banka geta áfram bókað Vildarmiða. Til að bóka þá miða þarf að hafa samband við þjónustuver Icelandair. Hægt er að nota punktana í flug, í verslun í Saga Shop Collection og Saga Shop Kitchen, hótelgistingu og bílaleigu innanlands sem utan. Hægt er að finna allar upplýsingar um punktanotkun hér. 

Tengiflug með samstarfsaðilum

Þú getur notað Punkta og peninga þegar þú bókar tengiflug með nokkrum af samstarfsaðilum okkar. Þeir aðilar sem bjóða upp á þennan valkost í dag, eru: 

  • Air Iceland Connect
  • Air Baltic
  • Alaska Airlines
  • Finnair
  • JetBlue
  • SAS

Uppfærsla fyrir Vildarpunkta

Korthafi getur notað Vildarpunkta til að greiða fyrir uppfærslu fyrir hluta ferðarinnar t.d. aðra leiðina eða fyrir báðar leiðir. Ekki er hægt að breyta uppfærslunni aftur í Vildarpunkta. Barnaafsláttur er ekki veittur af uppfærslu milli farrýma. Saga Club félagar geta notað Vildarpunkta til að uppfæra sig frá Economy Flex farrými upp á Saga Premium.

Þegar uppfært er fyrir punkta á milli farrýma nýtur þú þess þjónustuauka sem Saga Premium hafa upp á að bjóða. Þeir skilmálar sem gilda um fargjaldið sem greitt var fyrir haldast óbreyttir. Punktasöfnun miðast áfram við það fargjald sem greitt var fyrir.

Bóka  verður  uppfærslu hjá Þjónustuveri Icelandair eða  á söluskrifstofum Icelandair fyrir brottför. Aldrei er hægt að uppfæra fyrir punkta við innritun á flugvöllum.  Hægt er að finna allar upplýsingar um uppfærslu fyrir Vildarpunkta hér.

Kaupa og millifæra Vildarpunkta

Hægt er að kaupa Vildarpunkta fyrir sjálfan sig og líka er hægt að kaupa Vildarpunkta til að gefa öðrum. Einnig geta korthafar millifært Vildarpunkta á milli kortareikninga. Til að Kaupa, Gefa eða Millifæra Vildarpunkta þurfa félagar að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði. Færslugjald er innheimt fyrir hverja færslu. Nánari upplýsingar hér.

Þrátt fyrir að einstaka millifærslur Vildarpunkta séu heimilar þá er óheimilt að kaupa og selja Vildarpunkta í atvinnuskyni eða að auglýsa kaup og sölu á Vildarpunktum án samþykkis Icelandair. Þá er hvers konar markaðssetning tengd Vildarpunktum óheimil án samþykkis Icelandair. Icelandair áskilur sér rétt til að ógilda hvers konar millifærslur Vildarpunkta sem eiga sér stað með framangreindum hætti og jafnframt að loka reikningum þeirra félaga sem stunda slíka háttsemi.

Fyrning Vildarpunkta

Vildarpunktar gilda í allt að 4 ár þ.e. almanaksárið sem Vildarpunktar ávinnast og næstu 3 ár. Ef korthafi nýtir ekki Vildarpunktana á þessu tímabili falla þeir niður 31. desember. Fríðindastig fyrnast á 12 mánuðum.

Samstarfsaðilar

Upplýsingar um punktasöfnun og punktanotkun hjá samstarfsaðilum Saga Club má finna á vefsíðu klúbbsins.

Annað

Icelandair áskilur  sér rétt til að leggja Saga Club niður eða breyta honum hvenær sem er, með því eða án þess að tilkynna slíkt sérstaklega. Í þessu felst réttur Icelandair til að fella niður eða breyta reglum, punktakerfi, skilmálum við afhendingu Vildarþjónustu og úthlutun korta. Verði Saga Club lagður niður, er Icelandair heimilt að fella niður alla áunna punkta. Icelandair mun leitast við að tilkynna korthöfum fyrirfram ef tekin verður ákvörðun um að leggja Saga Club niður. Icelandair bera enga ábyrgð á tjóni eða tapi sem korthafar kunna að verða fyrir vegna breytinga á reglum þessum eða vegna þess að Saga Club er lagður niður.

Allar breytingar á reglum þessum eru bindandi fyrir korthafa 30 dögum eftir að honum var send tilkynning þess efnis. Vilji korthafi ekki samþykkja gerða breytingu skal hann skila korti sínu, klipptu í tvennt, til Icelandair innan 30 daga frá því að honum var send tilkynning um breytinguna. Korthafi telst samþykkja breytingar ef hann notar kort sitt, pantar Vildarferð eða notar aðra þjónustu sem í boði er.

Félögum í  Saga Club er óheimilt er að framselja Vildarferðir. Icelandair áskilur  sér rétt til að gera Vildarferð upptæka komi í ljós að hún hafi verið misnotuð. Brot á reglum þessum, svo og öðrum reglum Saga Club, geta leitt til þess að kort verði tekið af korthafa og til niðurfellingar á punktum.

Vildarþjónusta og allar Vildarferðir eru boðnar með fyrirvara um breytingar og nægilegt sætaframboð. Icelandair hefur gert samstarfssamninga við aðra aðila um að veita korthöfum ákveðna þjónustu. Icelandair mun leitast við að sjá til þess að slíkir þjónustuþættir verði í boði en ábyrgjast það ekki. Icelandair er ekki ábyrgt fyrir skaða sem hlýst af vanefndum samstarfsaðila. Icelandair ábyrgist heldur ekki skaða vegna þess að slíkur samstarfsaðili hættir þátttöku í Saga Club.

Félagar Saga Club verða eðli málsins samkvæmt að lúta skilmálum klúbbsins líkt og þeir eru á hverjum tíma en geta ella sagt sig úr klúbbnum með því að senda skriflega ósk þar um  telji þeir sig ekki geta sætt sig við efni skilmálanna.

Kynntu þér skilmála almennra Vildarferða hér.

Félagamiðar

Félagamiða Icelandair American Express og Arion World Elite vinamiða er ekki hægt að nýta þegar greitt er með Punktum og Peningum. Félaga- og vinamiðar eru aðeins nýtanlegir með Vildarbókunum.