Belgía er ekki stórt land en hefur þrátt fyrir það haft mikil áhrif á bragðskyn matgæðinga og bjórunnenda út um allan heim. Belgískur bjór er dásamaður (sérstaklega Trappist-bjórar sem bruggaðir eru í munkaklaustrum) og sú frægð sem fer af borginni fyrir óviðjafnanlega gott súkkulaði, er rækilega verðskulduð.
Frægasti réttur Belga er vafalaust kræklingur og franskar eða moules-frites. Á svæðinu við fiskmarkaðinn á Ste-Catherine eru margir frábærir staðir þar sem hægt er að smakka þennan rétt sem og annað sjávarfang.
Hér finnur þú einnig bístró sem framreiða klassíska evrópska rétti á gömlum, viðarklæddum matsölustöðum í bland við háklassa veitingastaði prýdda Michelin-stjörnum. Nýjum kaffihúsum fjölgar ört í Brussel þar sem matur frá öllum heimshornum er á boðstólnum. Fyrir þá sem vilja gæða sér á belgískum götumat er tilvalið að koma við á friterie eða frietkot og fá sér einn skammt af frites en það eru franskar - sem Belgar segjast reyndar hafa fundið upp á, og ættu því með réttu að nefnast "belgískar".