Flug til Dublin með Icelandair, verð frá

Ferðalag til Dublin

Dublinarbúar hafa getið sér góðan orðstír sem bráðfyndnir og dásamlegir gestgjafar og eru barirnir, tónlistin og frásagnarlistin óviðjafnanleg. En vertu viðbúin hinu óvænta sömuleiðis: Dublin er yfirfull af fyrsta flokks skemmtun á hverju horni, allt frá heimsbókmenntun til listaverka á heimsmælikvarða.

Borgarbrölt og bókmenntaást

Sögu Írlands er finna út um gervalla Dublin, frá stórfenglegum dómkirkjum til sögufrægra fangelsa, að ógleymdum töfrum Guinness brugghússins. Vertu líka viss um að fara beinustu leið að Trinity College og skoða þennan sögulega og ríflega 400 ára gamla háskóla. Í honum er að finna hina heimsfrægu Keltabók (e. The Book of Kells), guðspjallahandrit sem er talin til fegurstu bóka veraldar ásamt því að vera ein elsta bók sem hefur fundist (frá um 800 e.Kr.).

Söguþyrstir lestrarhestar geta rakið sögu stórskálda á borð við Joyce, Beckett og Wilde. Listaunnendur geta heimsótt ótal söfn og gallerý, og allir ættu að geta notið þess að ganga um borgina og virða fyrir sér grænu torgin, steinlögð strætin og mikilfenglegan georgískan arkítektúrinn. Varla þarf að taka það fram, en fólk er svo nánast skyldugt til þess að skella sér inn á einn (eða fleiri) klassískan hverfisbar og kynna sér írska alþýðumenningu.

Ljúf matargerð og líflegar krár

Vilt þú gæða þér á einhverjum af þjóðarréttum Íra eins og írsku boxty, colcannon eða champ? Þú munt kynnast kartöflum á nýjan hátt og í margvíslegum búningi, en sömuleiðis munt þú finna glæsilega veitingastaði sem bjóða upp á gómsæta dýrindisrétti beint frá býli. Ekki sleppa því að smakka sódabrauð eða einn þeirra fjölmörgu írsku osta sem í boði eru. Þegar hungrið kallar eru sömuleiðis fjölmargir skemmtilegir veitingastaðir á Temple Bar, líflegu svæði við ánna Liffey í miðborg Dublin, og fínni staði er að finna við Merrion-torgið, í hliðargötum við Grafton Street og í Ranelagh hverfinu í suðurhlutanum.

Nauðsynlegt er að drekka í sig hina margrómuðu írsku kráarmenningu - af nógu er að taka, þar sem í borginni er að finna yfir 1.000 ölknæpur. Margir pöbbar bjóða upp á mat samhliða flæðandi Guinness og írsku viskíi. Ennfremur er gott að virða fyrir sér sígilda innanhússhönnunina, spjalla við vingjarnlega borgarbúa, hlýða á ævintýralegar sögur og lifandi tónlist. Sláinte!