Ferðalangurinn þarf ekki að ganga langt út af aðallestarstöðinni við höfnina í miðborg Amsterdam, áður en hann fer að finna fyrir sögulegum anda staðarins. Gullöld hollendinga, sautjánda öldin, lifir góðu lífi í byggingarstíl og skipulagi miðborgarinnar, með sín háu, mjóu hús og breiðu síki.
En menningarlíf borgarinnar er afar fjölbreytilegt og einskorðast ekki við forna frægð. Á hinum fjölmörgu tónleikastöðum borgarinnar má heyra marga færustu tónlistarmenn Evrópu leika jazz, raftónlist, klassík, rokk og ótal margt fleira. Þá er um að gera að líta við á hefðbundinni hollenskri krá, hinum svonefndu bruin cafés, og skoða mannlífið í kringum síkin, slást svo í hóp með heimamönnum á gönguferð um Vondelpark í hjarta borgarinnar.
Þeim sem vilja kynnast hollenskri matargerð er bent á veitingastaðinn Haesje Claes, þar sem lagt er upp með hefðbundnar hollenskar máltíðir og hreinræktað hollenskt andrúmsloft. Svo er ekki úr vegi að líta við á Albert Cuypmarkt götumarkaðinum, versla og kannski bragða á hrárri síld og öðru hollensku góðgæti!