Flogið er með áætlunarflugi til og frá Verona. Flutningur á skíðum er innifalinn í verði. Akstur til og frá flugvelli er í boði gegn aukagjaldi fyrir farþega með flug og gistingu hjá VITA.
Fararstjóri VITA verður á svæðinu frá 20. janúar 2024. Fararstjórn á tímabilinu 20. desember 2023 - 20. janúar 2024 fer eftir bókunarstöðu og verður auglýst síðar.
Val Gardena er kunnuglegt svæði meðal Íslendinga, enda einn allra vinsælasti áfangastaður skíðaáhugafólks til margra ára. Selva er þekktasti skíðabærinn í dalnum, enda stendur bærinn í 1500 metra hæð og svæðið er stærsta samtengda skíðasvæði í Evrópu. VITA er með samninga við mjög góð hótel sem henta einstaklingum, fjölskyldum eða hópum af öllum stærðum og gerðum.
Segja má að Selva sameini helstu einkennin úr menningu, hefðum og gildum Ítalíu og Austurríkis, en svæðið hefur verið nátengt Austurríki frá því í fyrri heimsstyrjöldinni. Flestir íbúar Selva eru jafnvígir á ítölsku og þýsku en þó tala þeir einnig sitt eigið tungumál, ladínó eða „retórómanska" eins og hún er stunduð kölluð, sem á stóran þátt í að skapa bænum sinn eigin einstaka sjarma.
Útsýnið og aðstaðan í Selva er óviðjafnanleg. Töfrandi umhverfið er víst til að láta engan ósnortinn og hafa gestir og gangandi óteljandi möguleika til hverskyns iðkunar skíðaíþrótta. Þorpið sjálft liggur í um 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli og telur skíðasvæðið í heild sinni um 175 kílómetra af skíðabrautum. Hvorki fleiri né færri en 81 skíðalyfta sér um að flytja fólk á milli fjölbreyttra og ólíkra skíðabrauta og ættu því allir að geta fundið brekkur sem henta sinni getu. Að auki er boðið upp á skíðakennslu á svæðinu fyrir alla aldurshópa.
Miðbærinn í Selva lifnar við á kvöldin, þegar gestir á svæðinu taka að flykkjast á veitingastaði bæjarins. Matseldin er undir áhrifum frá ítölskum og austurrískum matarvenjum og úr verður skemmtileg blanda sem flestum líkar ákaflega vel. Skemmtistaðir, barir og krár eru á hverju horni og er óhætt að fullyrða að engum muni leiðast í miðbænum. Eins og víða annarsstaðar í nálægum fjallahéruðum er tréskurðarlist í hávegum höfð í Selva og í miðbænum er að finna mikinn fjölda verslana sem selja útskurðarverk.