Pingdom Check
03/26/2024 | 12:54 PM

Aldrei fór ég suður, hápunktur páskanna

Skemmuhátíðin Aldrei fór ég suður er haldin um páskana á Ísafirði í ár, líkt og síðastliðin 20 ár.
Hátíðargestir sem ákveða að leggja leið sína vestur verða ekki sviknir af þessari tónlistarveislu því lænöppið er engu líkt.

Það kostar ekkert inn, og hefur aldrei gert, sem er ótrúlegt afrek sjálfboðaliða og allra sem hafa lagt lið í gegnum tíðina. Enda er hátíðin ekki hagnaðardrifin að neinu leyti heldur snýst hún um rokk og ról, stemningu og samvinnu.
Það má auðvitað versla Aldrei-varning til að styrkja þetta öfluga framtak og viðburðurinn glæðir bæinn sannarlega lífi.

Icelandair hefur verið stoltur bakhjarl í gegnum árin og á afmælisárinu er engin undantekning þar á.
Því maður gerir ekki rassgat einn.

Tónlistarhátíð er sett

Ilmur frá mathöllinni, lögg í glasi, heimaprjónuð lopapeysa, einbeitt tónlistarfólk og glaðlynd andlit er það sem kemur upp í hugann þegar Aldrei fór ég suður er sett af hetjum hátíðarinnar.

Bærinn iðar af lífi og fólk á öllum aldri streymir að, því þetta er viðburður sem er fyrir börn jafnt sem fullorðna. Það er því mikilvægt að sýna virðingu og rokka saman í sátt og samlyndi.
Íbúatala Ísafjarðar tvöfaldast um páskana og kærleikur heimamanna til framtaksins skilar sér því umgjörðin er vel skipulögð, notaleg og heimilisleg.

AFÉS3-light.jpg

Riddarar AFÉS

Tónlistarfólkið sem tekur þátt að þessu sinni er ekki af verri endanum.

Bogomil Font dúndrar upp danssveiflu, rokkararnir í HAM mæta galvaskir, Of Monsters and Men meðlimir henda í þjóðlagapopp og Mugison tekur nokkra slagara.
Söngkonan GDRN lætur sig ekki vanta, rappararnir Emmsjé Gauti og Birnir verða á sínum stað ásamt Inspector Spacetime, Spacestation Nanna og Helga Björns.
Dr. Gunni og Heiða, Hipsumhaps, Celebs og músíktilraunabandið Vampíra heiðra einnig gesti með nærveru sinni.
Að lokum má ekki gleyma 40 manna lúðrasveit tónlistarskólans sem tryllir lýðinn, með trommuslátt og blástur að vopni.

En hvernig byrjaði þetta?

Rokkhátíð alþýðunnar var haldin í fyrsta skiptið árið 2004 eftir að feðgarnir Örn Guðmundsson og Guðmundur Kristjánsson, betur þekktir sem Mugison og Papamug, fengu þessa snilldar hugmynd. Þeir vildu blanda þekktu og óþekktu tónlistarfólki saman þar sem allir hefðu sama vægi.
Feðgarnir hafa gegnt fjölbreyttum hlutverkum í tengslum við hátíðina og hún hefur tekið á sig ýmsar myndir, eða eins og Örn orðaði það:

,,Stundum verður lélegur brandari góður með tímanum og þessi eldist vel."

Sagan frá Mugison og Papamug

Papamug_og_Mugison.jpg

Flug til Ísafjarðar

Flugtími frá Reykjavík er aðeins um 40 mínútur og flogið er daglega. Hér er hægt að skoða nánar verð og flugáætlun.

Fyrir þá sem eru að koma í fyrsta sinn á Aldrei þá er hægt að kynna sér nokkuð góð ráð hér.
Margir nýta tækifærið og heimsækja fjölskyldu og vini á meðan aðrir bóka sér gistingu.
Það er áhugaverð menningar- og skemmtidagskrá í boði á Ísafirði alla páskana.

Við óskum aðstandendum Aldrei fór ég suður til hamingju með áfangann!