Pingdom Check
02/05/2016 | 12:00 AM

Sex þúsund og fjögur hundruð fundir í Höllinni í dag

Aldrei fleiri á Icelandair Mid-Atlantic ferðakaupstefnunni

Ferðakaupstefnan Icelandair Mid-Atlantic sem nú stendur yfir er stærsta ferðakaupstefna sem haldin er á Íslandi. Hún er nú haldin í 24. skipti og hefur aldrei verið fjölmennari.

Kaupstefnan er haldin á vegum Icelandair til þess að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í þeim tilgangi að styrkja og auka ferðamannastraum til Íslands Hún er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni. Hún stendur nú yfir dagana 4. - 7.febrúar og fer fram í Laugardalshöllinni.

Alls eru 255 sýningarbásar settir upp í Laugardalshöllinni og í þeim munu fara fram um 6400 bókaðir fundir milli viðskiptaaðila í dag. Fulltrúar á Icelandair Mid-Atlantic eru nú um 850 og af þeim koma um 530 frá 21 landi sem hafa mikil ferðaþjónustutengsl við Ísland í Evrópu og Norður-Ameríku og einnig frá fjarlægari mörkuðum.. Vel á annað hundrað íslensk ferðaþjónustufyrirtæki víðs vegar að af landinu eru meðal þátttakenda og nýta þetta tækifæri til að kynna vöru sína og þjónustu.

Þátttakendur eru fulltrúar ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, skemmtigarða og margvíslegra annarra ferðaþjónustufyrirtækja og að auki taka þátt opinber ferðamálaráð ýmissa þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku og Evrópu.

“Ferðaþjónustan er orðin undirstöðuatvinnugrein á Íslandi og mikilvægt fyrir okkur að hafa frumkvæði að því að skapa ný viðskiptatækifæri. Sá aukni áhugi sem við finnum erlendis frá er þess vegna mjög ánægjulegur. Icelandair Mid-Atlantic er einn helsti vettvangur fyrir ferðaþjónustuna að mynda tengsl við samstarfsaðila og selja og kynna sína vöru beint fyrir kaupendum. En einnig eru hér evrópsk fyrirtæki að kaupa ferðaþjónustu frá Norður-Ameríku sem þeir síðan selja neytendum á heimamarkaði, og öfugt. Ísland er miðpunkturinn í öllu þessu starfi, líkt og í leiðarkerfi okkar,”segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.