Pingdom Check
04/21/2023 | 2:45 PM

Sautján börn og fjölskyldur fengu ferðstyrk Vildarbarna Icelandair á sumardaginn fyrsta

Sautján börnum og fjölskyldum þeirra, samtals 80 manns, var afhentur ferðastyrkur úr sjóði Vildarbarna Icelandair á sumardaginn fyrsta. Alls hafa 725 fjölskyldur notið stuðnings frá sjóðnum og rúmlega 3.500 mann ferðast á vegum hans. Sjóðurinn fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli og var úthlutunin í dag sú 35. í röðinni.

Markmið sjóðsins er að gefa langveikum börnum eða börnum sem búa við erfið skilyrði, og fjölskyldum þeirra, tækifæri til þess að fara í draumaferðina. Í hverjum styrk felst skemmtiferð fyrir barnið og fjölskyldu þess, og er allur kostnaður greiddur - flug, gisting, dagpeningar og aðgangseyrir að sérstökum viðburði sem barnið óskar sér. Líkt og við úthlutun styrkjanna undanfarin ár afhentu Sambíóin börnunum bíómiða.

Við afhendinguna í morgun skemmtu Diljá með Eurovision laginu árið 2023 og Flugfreyjukór Icelandair viðstöddum með tónlistarflutningi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair: „Það er mjög ánægjulegt að taka þátt í góðum verkefnum eins og Vildarbörn Icelandair eru. Sjóðurinn sem byggir á hugmyndum og starfi Peggy Helgason iðjuþjálfa, hefur nú starfað í tuttugu ár og veitt hundruðum fjölskyldna tækifæri til að ferðast og eiga saman gleðistundir. Við erum mjög stolt af sjóðnum og þakklát viðskiptavinum okkar fyrir þeirra framlag til þessa góða málefnis.“

Um Vildarbörn Icelandair

Starfsemi Vildarbarna Icelandair byggir á starfi Peggy Helgason, eiginkonu Sigurðar Helgasonar, sem lengi var forstjóri Flugleiða og stjórnarformaður Icelandair Group. Peggy hefur um árabil unnið sem sjálfboðaliði á barnadeildum sjúkrahúsa í Reykjavík og stutt fjölskyldur fjölda veikra barna með ýmsum hætti. Hún situr í stjórn Vildarbarna Icelandair og er Sigurður formaður stjórnarinnar. Vigdís Finnbogadóttir er verndari sjóðsins. Í tilefni af tuttugu ára afmælinu gáfu hjónin Peggy og Sigurður rausnarlegt framlag, tíu milljónir króna, til sjóðsins.

Sjóðurinn er fjármagnaður með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Saga Club Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflavíkurflugvelli og söluskrifstofu Icelandair. Einnig koma til frjáls framlög og viðburðir.

Á myndinni efst á síðunni má sjá styrkþegana ásamt stjórnendum Vildarbarna við úthlutunina.