Pingdom Check
04/01/2024 | 12:00 PM

Aprílgabb: Icelandair UP TO DATE

Það er alltaf smá glatað að hlaupa apríl og öll höfum við einhverja misgóða sögu af því að falla fyrir einhverjum skringilegum hrekk. Fyrsti apríl er hefð, og ótrúlegt en satt, hefur verið dagur hrekkjalóma í margar aldir.

Uppruninn er óljós en má þó rekja til breytinga á dagatalinu, þegar það gregoríska leysti hið júlíanska af hólmi og 1. janúar var gerður að nýársdegi. Mörg höfnuðu þessari breytingu og héldu áfram að fagna nýju ári þann 1. apríl, og eftir því sem tíminn leið urðu þau sem héldu í júlíanska dagatalið höfð að háði og spotti, og látin hlaupa apríl með skrítnum erindagjörðum.

lucas_IS.jpg

Hugmyndin að gabbinu

Gabbið var til að byrja með bara einkabrandari hjá appteymi Icelandair, þar sem við grínuðumst með að bæta deit-fítus við Icelandair appið og breyta nafni þess í TindAir. Farþegar í leit að ást gætu „matchað“ og valið að sitja saman.

Brandarinn fór svo á flug (nauðsynlegur orðaleikur) og endaði svo sem aprílgabb, þar sem okkur í appteyminu fannst gabbið eiginlega of fyndið til að framkvæma það ekki.

Icelandair UP TO DATE varð nafnið á þessum nýja fítus og farþegum stóð til boða að bæta honum við aðganginn sinn í Icelandair appinu.

Nafninu var haldið á ensku, enda var gabbið líka sett út á ensku fyrir alþjóðlega markaðinn okkar. Það er okkur mikilvægt hjá Icelandair að kynna anda Íslands fyrir umheiminum, og þótti liggja beint við að gera gott aprílgabb. Íslendingar gætu mögulega talist til einnar hrekkjóttustu þjóðar heims, og því ekki að sýna þessa hlið okkar á alþjóðavísu?

tveir_skjair_med_lucas_og_onnu.jpg

Að hlaupa apríl

Til að aprílgabb lukkist vel og teljist gilt, þarf sá aðili sem plataður er að fara yfir þrjá þröskulda. Við teljum okkur hafa tekist þetta með þremur stafrænum þröskuldum:

  1. Það þurfti að sækja/opna appið.
  2. Það þurfti að smella á viðeigandi hnapp á heimaskjá appsins til að sjá meira um þessa nýjung.
  3. Það þurfti að smella á hnapp til að bæta Icelandair UP TO DATE fítusnum við appið.

Ef þú ert hluti af hópnum sem hljóp apríl, vonum við að þú hafir ekki tekið þetta of nærri þér, enda allt í gamni gert.

Okkur finnst þetta samt frábær hugmynd, að geta farið á deit meðan flogið er út í heim eða aftur heim. Þetta er samt kannski ekki hugmynd fyrir flugfélag.

...og þó, fólk hefur fundið ástina um borð í vélunum okkar, það er aldrei að vita hvenær örlögin láta til sín taka.