Pingdom Check
05/02/2017 | 12:00 AM

Rolls-Royce og Icelandair fagna tímamótum

Í dag fögnuðu Rolls Royce og Icelandair sextíu ára samstarfi með stuttri athöfn í flugskýli félagsins á Keflavíkurflugvelli. Bruce Blythe, aðstoðarforstjóri Rolls-Royce, afhenti Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóra Icelandair minjagrip gerðan úr vélarhlutum í tilefni tímamótanna, og farþegar Icelandair milli Bretlands og Íslands fá í vikunni glaðning frá Rolls-Royce.

Bruce Blythe segir Icelandair hafa sérstöðu meðal viðskiptavina Rolls-Royce vegna langrar samstarfssögu, en einnig vegna viðhaldsárangurs og nýtingarmeta sem félagið hefur sett í notkun RB211 hreyfilsins, m.a. heimsmet sem náðist árið 2000 þegar hreyfill hafði verið á sama vængnum samfellt í 40,531 flugstundir, eða sem svarar 37 ferðum til tunglsins og til baka.

Sextíu ára samstarfssaga fyrirtækjanna byggir á eftirfarandi flugvéla- og hreyflategundum, en fyrsta flugvélin af Vickers Viscount gerð kom til landsins 2. maí 1957:

  • Vickers Viscount 1957-1967 – Dart hreyflar
  • Canadair CL-44 1964-1973 – Tyne hreyflar
  • Fokker F27 1965-1993 – Dart hreyflar
  • Boeing 757 1990+ - RB211-535E4 hreyflar

Icelandair er með 28 Boeing 757 þotur í farþegaflugflota sínum um þessar mundir sem allar eru með Rolls-Royce hreyfla. Félagið fagnar 80 ára afmæli sínu á árinu.

Á myndinni afhendir Bruce Blythe, aðstoðarforstjóri Rolls-Royce Birki Hólm Guðnasyni, framkvæmdastjóri Icelandair, minjagrip í tilefni samstarfsafmælisins.