Stefna í samfélagsábyrgð
Árið 2019 var ný stefna Icelandair kynnt til sögunnar. Eitt af þeim fimm markmiðum sem fyrirtækið setur sér fyrir árið 2025 er að verða leiðandi afl þegar kemur að því að axla samfélagslega ábyrgð. Ábyrgð er því lykilstef í þeirri áætlun sem nú er unnið eftir. Stefnan í heild sinni hverfist um arðbærni, sjálfbæran vöxt, og ábyrgð.
Út frá þessum grunni þróaði Icelandair árið 2019 nýja stefnu um sjálfbærni, þar sem tekið er mið af Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Sjálfbærnimarkmiðin hafa orðið að sameiginlegum útgangspunkti ríkisstjórna, samfélaga og fyrirtækja um allan heim til að vinna að aukinni sjálfbærni í framtíðinni. Við þróun hinnar nýju stefnu, áttum við ítarlegar umræður við hagsmunaaðila, skoðuðum hvaða leiðir önnur flugfélög hafa farið í sinni stefnumótun, og gerðum greiningu á bæði jákvæðum og neikvæðum áhrifum Icelandair á Sjálfbærnimarkmiðin.