Skilmálar um kolefnisreiknivél | Icelandair
Pingdom Check

Skilmálar um kolefnisreiknivél

Klappir grænar lausnir hf. og Kolviður hafa tekið höndum saman um að viðskiptavinir Icelandair geti kolefnisjafnað flugferðir sínar í gegnum hugbúnað Klappa.

Á grundvelli umhverfisuppgjöra Icelandair sem gerð eru í umhverfishugbúnaði Klappa er farþegum Icelandair gert kleift að kolefnisjafna umhverfisáhrif sín í samstarfi við Kolvið með einföldum hætti.

Kolviður vinnur að því að binda kolefni í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Plöntun Kolviðar til kolefnisbindingar hefur farið fram á Geitasandi og Úlfljótsvatni og næstu svæði verða við Skálholt og í framtíðinni á Mosfellsheiði. Starfsemi Kolviðar er með skipulagsskrá og því undir eftirliti Ríkisendurskoðunar og kolefnisbindingin er mæld af Íslenskri skógarúttekt sem safnar saman á vísindalegan hátt upplýsingum um bindingu kolefnis í skóginum samkvæmt vinnureglum skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum (UNFCCC).

Gróðursetning
Gróðursetning plantna til kolefnisbindingar á sér stað frá því í maí til loka október. Hugbúnaður Klappa heldur utan um gróðursetninguna, m.a. fjölda plantna og staðsetningar þeirra. Sérfræðingar Kolviðar ákvarða plöntuval og áburðagjöf út frá aðstæðum á gróðursetningastað. Alltaf verða einhver forföll í lifun plantna og annast Kolviður íbótagróðursetningu fyrir þær plöntur sem ekki ná að lifa. Miðað er við að það séu 2500 lifandi plöntur á hektara og að þær fái allt að 60 ár til að binda tilskilið magn CO2.

Um Kolvið
Kolviður er sjóður sem starfar samkvæmt skipulagsskrá samþykktri af stjórnvöldum 2006 og lýtur eftirliti Ríkisendurskoðunar.

Stofnendur sjóðsins eru Skógræktarfélag Íslands og Landvernd með stuðningi ríkisstjórnar Íslands. Markmið sjóðsins er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti. Sjóðurinn vinnur að þessu markmiði með því m.a. að:
a. Gefa fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum tækifæri til þess að gerast kolefnishlutlaus.
b. Fjármagna aðgerðir til bindingar kolefnis með landgræðslu og skógrækt.
c. Stuðla að verndun jarðvegs og gróðurs.
d. Stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um losun gróðurhúsalofttegunda.
e. Draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Íslensk skógarúttekt á Mógilsá annast mælingar á kolefnisbindingu Kolviðarskóga og ytri endurskoðendur (KPMG í dag) yfirfara og sannreyna að nauðsynleg plöntun og umhirða eigi sér stað og að fjármunir séu tryggðir til umhirðu þar til trjáræktin hefur skilað þeirri bindingu sem kolefnisjöfnunin miðar að.

Um Klappir
Klappir er hugbúnaðarfyrirtæki sem vinnur að þróun og innleiðingu hugbúnaðarlausna í umhverfismálum, þ.e. umhverfisstjórnunarlausnir. Lausnir og aðferðafræði Klappa fela í sér söfnun, vinnslu og miðlun umhverfisupplýsinga, þar sem mögulegt er að greina gögnin, setja upp töluleg markmið og fá heildstæða yfirsýn yfir mengandi starfsþætti.

Hlutverk Klappa er að auðvelda viðskiptavinum sínum að lágmarka vistspor sitt, bjóða hugbúnaðarlausnir sem tryggja lögfylgni við umhverfislöggjöf og gera allt umhverfisuppgjör öruggt, gagnsætt og skilvirkt. Hugbúnaðurinn veitir viðskiptavinum þann möguleika að miðla áfram upplýsingum um árangur í umhverfismálum og er opinberum aðilum jafnframt gert mögulegt að fylgjast með árangri af aðgerðum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.