Skilmálar farseðlakaupa | Icelandair
Pingdom Check

Skilmálar farseðlakaupa

Athugið: Sé ferð farþega heitið til annars lands, eða leiði af henni dvöl í öðru landi en brottfararlandi, gilda ákvæði Varsjársamningsins, en sá samningur kveður á um og takmarkar að jafnaði ábyrgð flugfélags á dauða eða meiðslum, ásamt tapi farangurs eða skemmdum. Sjá einnig athugasemd með fyrirsögninni „Tilkynning til millilandafarþega um takmörkun ábyrgðar” og „Tilkynning um takmörkun ábyrgðar á farangri”.

1. Í samningi þessum merkir orðið „farseðill” þennan farþegafarseðil og farangursmiða, eða þessa ferðaáætlun/kvittun ef við á þegar um rafrænan farseðil er að ræða og eru skilmálar þessir og tilkynningarnar hluti hans. Flutningur (carriage) merkir sama og „flutningur” (transportation), flugfélag (carrier) nær til allra flugfélaga, sem flytja farþegan eða skuldbinda sig til að flytja hann eða farangur hans samkvæmt þessum farseðli eða inna af hendi hverskyns aðra þjónustu, tengda slíkum loftflutningi. Rafrænn farseðill merkir ferðaáætlun/kvittun, sem gefin er út af flugfélaginu eða , fyrir þess hönd, rafrænir miðar og, ef við á, brottfarargagn, Varsjársamningurinn er alþjóðasamningur um samræmingu tiltekinna reglna um loftflutning milli landa, er undirritaður var í Varsjá 12. október 1929, eða samningurinn eins og honum var breytt í Haag 28. september 1955, hvor sem við á.

2. Flutningur samkvæmt farseðil þessum er háður reglum þeim og takmörkunum á ábyrgð, sem ákveðnar eru í Varsjársamningnum, nema ekki sé um milliríkjaflutning að ræða samkvæmt þeim samningi.

3. Að svo miklu leyti sem það brýtur ekki í bága við það, er að framan getur, gilda um flutning og aðra þjónustu sérhvers flugfélags: (l)ákvæði þessa farseðils, (ll)gildandi gjaldskrár, (lll) flutningsskilmálar flugfélags og skyld ákvæði, sem teljast hluti þessa farseðils (og fást samkvæmt beiðni í skrifstofu flugfélags); nema að því er varðar flutning milli staðar í Bandaríkjunum eða Kanada og staða utan þeirra ríkja, en um þann flutning gilda gjaldskrár í umræddum löndum.

4. Nafn flugfélags má stytta í farseðlinum, enda komi fullt nafn og stytting þess fram í gjaldskrám félagsins, flutningsskilmálum, reglugerðum, eða flugáætlunum. Utanáskrift flugfélags skal vera brottfararflughöfn sú, sem greind er við fyrstu skammstöfun á nafni flugfélagsins í farseðlinum. Umsamdir viðkomustaðir eru staðir þeir, sem greindir eru í farseðli þessum eða í flugáætlun á leið farþega. Flutningur, sem framkvæma skal samkvæmt þessum farseðli skoðast sem ein og sama framkvæmd, þótt fleiri flugfélög eigi hlut að honum.

5. Flugfélag, sem gefur út farseðil fyrir leiðir annars flugfélags, gerir það sem umboðsmaður þess eingöngu.

6. Sérhver undantekning eða takmörkun bótaskyldu flugfélags skal gilda um og ná til umboðsmanna, starfsmanna og fulltrúa, flugfélagsins, svo og til eigenda flugfara, er til flutningsins eru notuð, umboðsmanna þeirra, starfsmanna og fulltrúa.

7. Farangur, sem skráður er samkvæmt farseðli þessum, afhendist handhafa farangursmiða. Verði tjón á farangri á flugleið milli landa, ber að tilkynna flugfélaginu það skriflega jafnskjótt og það kemur í ljós eða í síðasta lagi sjö dögum eftir móttöku, en verði töf á afhendingu ber að senda kvörtun innan 21 dags frá afhendingu farangurs til flutnings. Sjá gjaldskrár og flutningsskilmála að því er varðar flutning, sem ekki er milliríkjaflutningur.

8. Farseðill þessi gildir í eitt ár frá útgáfudegi, nema annað sé tekið fram í honum, í gjaldskrám flugfélags, flutningsskilmálum eða ámóta reglum. Fargjald samkvæmt farseðli þessum er háð breytingum, er verða kunna áður en flutningur er hafinn. Getur flugfélag neitað flutningi, ef gildandi fargjald hefur eigi verið greitt.

9. Flugfélagið skuldbindur sig til að gera sitt ýtrasta til að flytja farþega og farangur á sem skemmstum tíma. Eigi er tekin ábyrgð á tímum, í flugáætlun eða annars staðar, og eru þeir ekki hluti samnings þessa. Flugfélagi er heimilt að skipta um flytjanda eða flutningstæki án fyrirvara og sleppa viðkomustöðum, er í farseðli greinir, ef nauðsyn krefur. Áætlunum má breyta án fyrirvara. Flugfélag ber ekki ábyrgð á, að farþegi nái framhaldsflugferð.

10. Farþega ber að fullnægja ákvæðum laga og reglugerða um ferðalög, leggja fram brottfararskjöl, komuskjöl og önnur nauðsynleg skilríki og mæta í flughöfn á þeim tíma, er flugfélag tilgreinir, eða, ef enginn tími er greindur, svo snemma að ráðrúm sé til að ljúka framkvæmdum varðandi brottför.

11. Farþegi ber ábyrgð á öllum kostnaði og gjöldum sem tengjast þessar bókun og upp geta komið á síðari stigum, svo sem vegna breytinga á bókun, og heimilar notkun á greiðslukorti sínu til greiðslu slíks kostnaðar.

12. Engum, umboðsmanni, starfsmanni né fulltrúa flugfélags er heimilt að breyta, lagfæra eða fella úr gildi nokkur ákvæði samnings þessa.

Flugfélag áskilur sér rétt til að synja hverjum þeim flutningi, sem aflað hefur sér farseðils í trássi við gildandi lög eða gjaldskrár flugfélags, reglur eða reglugerðir.

Tilkynning til millilandafarþega um takmörkun ábyrgðar
Hér með tilkynnist farþegum, sem eru á ferð til áfangastaðar eða millilendingar í öðru landi en upprunalandinu, að um alla ferðina kunni að gilda milliríkjasamningur, er nefnist Varsjársamningurinn, þar á meðal sá hluti ferðarinnar, sem er algjörlega innan uppruna eða áfangalandsins. Að því er varðar slíka farþega, sem eru á ferð til, frá eða með umsömdum lendingarstað í Bandaríkjum Ameríku, gildir samningurinn að viðbættum sérstökum samningsskilmálum sem honum eru tengdir þess efnis, að ábyrgð vissra flugfélaga, sem eru aðilar að slíkum sérsamningum, vegna dauða eða líkamlegra meiðsla farþega, er í flestum tilfellum takmörkuð við sannað tjón, er fari ekki fram úr 75.000 Bandaríkjadölum per farþega og að ábyrgð þessi að slíku marki sé ekki bundin við vanrækslu af flugfélagsins hálfu. Að því er varðar farþega, er ferðast með flugfélagi, sem ekki er aðili að slíkum sérsamingum eða eru á ferð, sem ekki er til, frá eða með umsömdum lendingarstað í Bandaríkjum Ameríku, takmarkarst ábyrgð flugfélags vegna dauða eða líkamlegra meiðsla farþega í flestum tilfellum við um það bil 10.000 eða 20.000 Bandaríkjadala. Nöfn flugfélaga, sem eru aðilar að slíkum sérsamningum, er hægt að fá og kanna í öllum farmiðaskrifstofum þeirra.
Venjulega er hægt að afla sér aukatryggingar meða því að kaupa vátryggingu hjá tryggingarfélögum. Takmörkun á ábyrgð flugfélagsins samkvæmt Varsjársamþykktinni eða slíkum sérsamningum hefur ekki áhrif á slíka vátryggingu. Góðfúslega leitið nánar upplýsinga hjá flugfélagi eða fulltrúa vátryggingafélags yðar.

Athugasemd: Takmörkun ábyrgðar við 75.000 Bandaríkjadali felur í sér allan málskostnað, þó þannig, að þegar um er að ræða kröfu, sem gerð er í ríki, þar sem ákvæði eru um aukalega tildæmdan málskostnað, takmarkast upphæðin við 58.000 Bandaríkjadali auk málskostnaðar.

Í stað ofangreindra takmarkana á ábyrgð er upphæð 10.000 eða 20.000 Bandaríkjadala eftir því sem við á, hafa viss flugfélög enn hærri ábyrgðarmörk, að upphæð 100.000 SDR sérstök dráttarréttindi (eða um það bil jafnvirði þess) þegar um dauðsfall eða meiðsli er að ræða sem þeir gætu talist bera ábyrgð á samkvæmt Varsjársamningnum. Nöfn þeirra flugfélaga og nákvæm upphæð slíkrar ábyrgðar, ásamt frekari skilyrðum sem tengjast téðum ábyrgðarmörkum, eru fyrirliggjandi á öllum söluskrifstofum viðkomandi flugfélaga.