Pingdom Check
11/03/2017 | 12:00 AM

Berlínarflug Icelandair hófst í dag

Í dag hófst áætlunarflug Icelandair til Tegel flugvallar í Berlín, og var því fagnað með viðhöfn á flugvellinum. Icelandair býður upp á morgunflug til Berlínar þrisvar í viku; á föstudögum, sunnudögum og mánudögum.

„Það er ánægjulegt að bjóða nú upp á fjórða áfangastaðinn okkar í Þýskalandi, því auk Berlínar flýgur Icelandair til Frankfurt, Munchen og Hamborgar,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. „Berlín er stærsta borg Þýskalands og býr yfir merkilegri sögu, fjölbreyttu menningarlífi og líflegu næturlífi. Borgin hefur lengi verið vinsæl meðal Íslendinga, bæði til búsetu og heimsóknar, enda finna allir eitthvað sitt við hæfi þar. Það er því ánægjulegt að geta á ný þjónustað þá landa okkar sem þangað sækja og við erum stolt af því að geta nú boðið bestu upplifunina í flugi milli Berlínar og Íslands,“ segir Birkir.

Icelandair hefur verið leiðandi í flugi og ferðaþjónustu á Íslandi í 80 ár. Leiðarkerfi félagsins er hugsað og skipulagt sem tenging á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku og hefur margfaldast að umfangi frá árinu 2009. Þá voru farþegar um 1,3 milljónir en á þessu ári er gert ráð fyrir að þeir verði rúmlega 4 milljónir. Icelandair býður upp á yfir 600 klukkustundir af afþreyingu fyrir alla fjölskylduna í sætisbaki og þráðlaust net allt frá því stigið er um borð og þar til komið er í flugstöð á öllum flugleiðum félagsins.

Á myndunum sem fylgja fagna Elmar Kleinert, framkvæmdastjóri Berlin-Tegel flugvallar og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair fyrsta fluginu fyrir brottför frá Berlín í morgun, og með áhöfninni.

Hér getur þú kynnt þér Berlín nánar