Takmarkanir á farangri | Icelandair
Pingdom Check

Farangur

Hér færðu svörin við öllum helstu spurningum um innritaðan farangur og handfarangur.

Takmarkanir á farangri um borð í vélum Icelandair

Af öryggisástæðum er ekki heimilt að koma með eftirfarandi hluti um borð í farþega- eða farangursrými án þess að fá samþykki Icelandair með góðum fyrirvara.

Eftirfarandi hluti þarf undir flestum kringumstæðum að senda sem flugfarm. Ákveðnir varasamir hlutir eru leyfilegir í lestarfarangri vélarinnar að því gefnu að samþykki frá Icelandair liggi fyrir áður en um borð er komið.

Eftirfarandi hluti má ekki hafa með sér í innrituðum farangri

Flokkar Lýsing
Sprengiefni og íkveikjuefni og -tæki Sprengiefni og íkveikjuefni og –tæki sem unnt er að nota eða virðist vera unnt að nota til að valda alvarlegum áverkum eða til að ógna öryggi loftfars, þ.m.t.:
- skotfæri,
- sprengihettur,
- hvellhettur og sprengiþræðir,
- eftirlíkingar eða eftirgerðir af sprengibúnaði,
- jarðsprengjur, handsprengjur og aðrar sprengifimar hernaðarbirgðir,
- skoteldar og aðrar flugeldavörur,
- reykhylki og reykdósir,
- dínamít, byssupúður og plastsprengiefni.
Ætandi efni T.d. sýrur, basa, vökvarafhlöður og kvikasilfur.
Þjappaðar lofttegundir T.d. bútan, súrefni, própan og fljótandi köfnunarefni á kútum. (Djúpfrystar, eldfimar, ekki eldfimar eða eitraðar).
Smitandi efni Lifandi veiruefni.
Eitruð efni T.d. sumt skordýraeitur, illgresisefni, arsen og blásýrusölt.
Geislavirk efni
Sprengiefni T.d. skotfæri, flugeldar og blys.
Oxandi efni (íðefni)
T.d. bleikiduft, nítröt og peroxíð.
Eldfima vökva og föst efni T.d. aseton (naglalakkseyði), málning, þynnir, kveikjarar, kveikjarabensín og spíri til hreinsunar.
Lyf og snyrtivörur Leyfilegt að hafa meðferðis í litlu magni.
Eldspýtur Hver farþegi má hafa á sér eldspýtur.
Skjalatöskur
Töskur með innbyggðum þjófavarnarbúnaði sem innihalda litíum-rafhlöður og/eða sprengibúnað.
Svifbretti (hoverboards, balance wheels, scooters) Svifbretti sem ganga fyrir litíum rafhlöðum.

Í einhverjum tilfellum þarf samþykki frá Icelandair til flutnings á hættulegum varningi.

Athugið

Farþegar sem ekki fara að þessum tilmælum og ferðast með hættuleg tæki til eða frá Bandaríkjunum og Kanada, verður vísað frá borði.

Hvað ætti ég ekki að setja í innritaðan farangur?

Farþegar ættu ekki að setja brothætta eða viðkvæma hluti í innritaðan farangur, t.d. peninga, lykla, skartgripi, raftæki, málma, silfurbúnað, viðskiptabréf, viðskiptaskjöl, verðbréf, verðmæta hluti, sjúkragögn, vegabréf eða önnur auðkennisskjöl eða -sýni.

Ferðamenn sem ferðast til/frá Bandaríkjunum eru beðnir um að taka tillit til kvaða TSA (Transportation Security Administration í Bandaríkjunum) varðandi læsingar á innrituðum farangri. Frá 14. apríl 2005 er óheimilt að hafa kveikjara og eldspýtur í handfarangri í farþegarými og í innrituðum farangri í flugi til og frá Bandaríkjunum. Tæmandi upplýsingar má finna á vefsíðu TSA.

Rafsígarettur

Það er bannað að nota rafhlöðuknúnar rafsígarettur af öllum gerðum um borð. Farþegar mega þó hafa rafsígarettur á sér og taka þær með í handfarangri (en ekki í innrituðum farangri). Nauðsynlegt er að fjarlægja rafhlöður úr rafsígarettum til þess að koma í veg fyrir að þær fari óvart í gang í fluginu. Vararafhlöður þarf að geyma í sérumbúðum, pakka hverri rafhlöðu fyrir sig, til að koma í veg fyrir mögulegt skammhlaup.

Takmarkanir á handfarangri


Flokkar Lýsing
Byssur, skotvopn og önnur tæki sem skjóta skotum Tæki sem unnt er að nota eða virðist vera unnt að nota til að valda alvarlegum áverkum með því að skjóta skotum.

Tæki sem eru hönnuð sérstaklega til að dasa fólk eða valda því að það geti ekki hreyft sig.
Iðnaðarverkfæri eða önnur öflug tól og tæki Verkfæri sem unnt er að nota annað hvort til að valda alvarlegum áverka eða til að ógna öryggi loftfars.
Oddhvassir hlutir og eggvopn Almennt eru oddhvassir hlutir og eggvopn sem unnt er að nota til að valda alvarlegum áverka óheimil í handfarangri. 
Í einhverjum tilfellum geta hlutir sem notaðir eru við útsaum, prjón eða aðra handavinnu fallið undir þessa takmörkun. Þó er það ekki algilt, enda sumir prjónar og heklunálar með nægilega rúnnaða odda til þess að standast þær kröfur sem gerðar eru.
Hafið ávallt í huga að öryggisstarfsmenn hvers flugvallar fyrir sig hafa fulla heimild til þess að leggja mat á hvenær hlutir í handfarangri teljast falla undir það sem bannað er að ferðast með samkvæmt reglugerð um flugöryggi.
Bitlaus áhöld og tól Bitlaus áhöld og tól sem unnt er að nota til að valda alvarlegum áverkum þegar þau eru notuð til að berja með.
Sprengi- og íkveikjuefni og tæki
Sprengi- og íkveikjuefni og tæki sem unnt er að nota eða virðist vera unnt að nota til að valda alvarlegum áverkum eða til að ógna öryggi loftfars.

Hvað má ég ekki hafa með í handfarangri?

Upplýsingar um þær takmarkanir á farangri sem settar eru af öryggisástæðum í ferðum frá Íslandi, innan eða frá Evrópu, má finna á vefsíðu Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. 

Upplýsingar um þær takmarkanir á farangri sem settar eru af öryggisástæðum í ferðum frá Bandaríkjunum má finna á vefsíðu bandarísku ríkisstofnunarinnar um öryggi í samgöngumálum  (Transportation Security Administration).

Við þurfum að gæta öryggis farþega okkar og sjá til þess að hver og einn hafi nægilegt rými. Því ber starfsfólki okkar ekki skylda til að koma fyrir hvers kyns fyrirferðarmiklum handfarangri, t.d. innrömmuðum myndum.

Farangur í yfirstærð

Öllum farangri í yfirstærð verður komið fyrir í farangurgeymslu flugvélarinnar. Farangurinn er merktur með áfangastað.

Hver farþegi ber fulla ábyrgð á öllum farangri sem hann eða hún tekur með sér um borð í flugvél Icelandair. Farangrinum skal koma fyrir í farangurshólfi eða undir sætinu fyrir framan farþegann.

Vökvi í handfarangri

Vökva má ferðast með í handfarangri að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum (á aðeins við um millilandaflug):

FlokkarLýsing
Hámarksmagn í hverri einingu umbúða* Hver eining umbúða má að hámarki rúma 100 millilítra (1dl) af vökva.
Plasthylki utan um umbúðir Allar umbúðirnar verða að rúmast í gegnsæjum eins (1) lítra plastpoka sem hægt er að loka með plastrennilás.
Magn fyrir hvern einstakling Hverjum farþega er heimilt að hafa með sér einn poka.

*Með umbúðum er átt við flöskur, túpur, hylki og annað sem getur innihaldið vökva

Takmarkanir á vökvum, úðaefnum eða gelum (LAGs)

LAGs eru hvers konar vökvar, gel, krem, vökva/krem blöndur eða innihald þrýstikúta. Dæmi um LAGs eru meðal annars, en einskorðast ekki við; áfengir drykkir, tannkrem, hárgel, drykkir, súpur, síróp, rakspírar, ilmvötn, rakakrem, úðaefni og önnur efni af svipuðum toga.

LAGs, hvert fyrir sig, má ekki innihalda meira en 100ml. Samanlagt magn LAGs í handfarangri má ekki vera meira en 1 lítri. Framvísa verður LAGs í einum gagnsæjum, margnota plastpoka sem má ekki innihalda meira en 1 lítra af vökva við skimun.    

Athugið

Gosflöskur og dósir eru flestar stærri en 100 ml (1 dl) og er því ekki heimilt að hafa þær með inn fyrir öryggishlið.

Eftirtaldar undantekningar eru á 100ml/1L reglunni:

Flokkar Lýsing
Foreldrar sem ferðast með ungbörn Foreldrum með ungbörn er heimilt að taka með eins mikið af vökva og þarf fyrir ungbörn á meðan á ferðalagi stendur. Þessi undantekning gildir einvörðungu ef ferðast er með ungbarn. Vinsamlegast hafið meðferðis einvörðungu það magn sem nauðsynlegt er á meðan ferðinni stendur.
Nauðsynleg lyf Sjúklingar mega hafa eins mikið af lyfjum í vökvaformi, sem og stungulyf, og nauðsynlegt er að nota á meðan á ferðalagi stendur.
Öll lyf Við mælum með því að hafa læknisvottorð á ensku með ef starfsmenn flugvalla skyldu óska eftir skilgreiningu á lyfjum sem ferðast á með.

Hver eining umbúða má ekki rúma meira en 100 millilítra.

Reglur um duft og púður í handfarangri til Bandaríkjanna

Frá 30. júní 2018 er farþegum til Bandaríkjanna bannað að vera með duft/púður í handfarangri sem er meira en 350 ml. í einu íláti. Undanþegin þessum reglum eru duftefni ávísuð af lækni sem lyf, duft til mjólkurgerðar fyrir börn og jarðneskar líkamsleifar.

Undir skilgreiningu dufts eða púðurs falla meðal annars hvers konar fínmöluð efni á borð við hveiti, sykur, malað kaffi, krydd og snyrtivörur.

Duft eða púður sem keypt eru í fríhafnarverslunum eru í lagi ef þeim er komið fyrir í STEB-pokum (Security tamper-evident bag).

Athugið að eftir sem áður er heimilt að koma fyrir hvaða magni af dufti eða púðri, sem rúmast innan skilgreindra takmarka um þyngd, í farangri sem skráður er til flutnings í farangursrými flugvélar.

Nauðsynjavörur um borð

Farþegum er leyfilegt að hafa með sér um borð nauðsynjavörur til einkanota, að því gefnu að öryggisgæslu flugvallarins þyki ekki stafa hætta af þeim. Hér eru dæmi um vörur af þessu tagi:

Lyfseðilsskyld lyf Í magni sem dugir út flugferðina.
Matur / Næring Barnamatur og matvæli vegna sérstaks mataræðis.

Takmarkanir sem varða flutning á lítíum rafhlöðum

Þegar ferðast er með auka lítíum rafhlöður sem knýja ýmis konar raftæki, eins og t.d. myndavélar, farsíma, fartölvur eða upptökuvélar, skal eingöngu flytja rafhlöðurnar í handfarangri. Sé handfarangurstaskan fjarlægð úr farþegarýminu og geymd í lest flugvélarinnar, vegna takmörkunar á plássi, skal gera grein fyrir lítíum rafhlöðunum áður en taskan er fjarlægð.

Skemmd, biluð, eða endurkölluð lithíum batterí og raftæki með slík batterí eru bönnuð um borð í flugvélum. Ef skemmt, bilað, eða endurkallað batterí eða raftæki hefur óvart verið tekið um borð þarf farþegi að slökkva á tækinu, gæta þess að ekki kvikni óvart á því, hafa það nærtækt hjá sér (ekki í farangri) og ekki hlaða batteríið. Láta skal áhöfn vita strax ef tæki er skemmt, ofhitnar, gefur frá sér reyk, týnist, eða fellur á milli sætanna.

Skotvopn

Skotvopn og önnur vopn má einungis flytja ef þau falla í eftirtalda flokka:

FlokkarLýsing
Ætluð til veiða Vopn sem notuð eru til veiða á dýrum.
Notuð við skotfimiæfingar Notuð við skotfimiæfingar, svo sem leirdúfuskotæfingar, svo framarlega sem vopnin eru ekki sömu gerðar og vopn notuð til stríðsreksturs.
Önnur vopn notuð til afþreyingar eða við ástundun íþrótta Loftbyssur, örvabyssur eða byssur notaðar við rásmark í íþróttum.

Ekki má flytja skotvopn og önnur vopn ef þau eru notuð í stríðsrekstri. Vopn sem teljast til forngripa geta þó verið flutningshæf.

Flutningur skotvopna er einungis leyfður ef þau eru ætluð til einkanota fyrir þann aðila sem ferðast með vopnin. Vopnin þurfa að vera í öruggum pakkningum og hver eining má ekki vera þyngri en 5 kíló. Meðfylgjandi kúlur, högl, örvar o.s.frv. verða að vera í annarri pakkningu en skotvopnin. 

Skotvopnin og meðfylgjandi  kúlur, högl, örvar o.s.frv. sem samræmast ofangreindum liðum má einungis flytja sem fragt eða í innrituðum farangri. Vopnin mega ekki vera hlaðin.