65 ár frá upphafi Bandaríkjaflugs | Icelandair
Pingdom Check
08/25/2013 | 12:00 AM

65 ár frá upphafi Bandaríkjaflugs

Í dag 25. ágúst, eru 65 frá því áætlunarflug milli Íslands og Bandaríkjanna hófst. Í tilefni tímamótanna er flugáhöfn í flugi Icelandair í dag til New York skipuð afkomendum og fjölskyldumeðlimum þeirra sem flugu til borgarinnar í fyrsta fluginu. Flugstjóri í fluginu í dag er Geirþrúður Alfreðsdóttir, dóttir Alfreðs Elíassonar, fyrrum forstjóra Loftleiða og Flugleiða, en hann var einmitt flugstjóri í fyrsta fluginu.
 
Lagt var af stað í fyrstu áætlunarferðina til Bandaríkjanna 25. ágúst 1948 á 46 sæta Skymaster flugvél sem bar nafnið Geysir. Millilent var í Goose Bay í Kanada til að taka eldsneyti og lenti svo vélin á Idlewild flugvelli í New York 26 ágúst, en flugvöllurinn var endurskírður JFK 1963. Koma Geysis til New York vakti talsverða athygli og birtust fréttir af þessu fyrsta íslenska áætlunarflugi í helstu dagblöðum vestra.
 
Áhöfnina í flugi Icelandair til New York í dag skipa:
Geirþrúður Alfreðsdóttir flugstjóri, dóttir Alfreðs Elíassonar flugstjóra
Jóhann Axel Thorarensen flugmaður, barnabarn Axels Thorarensen siglingafræðings
Katrín Guðný Alfreðsdóttir flugfreyja, dóttir Alfreðs Elíassonar flugstjóra
Gunnhildur Mekkinósson flugfreyja, bróðurdóttir Fríðu Mekkinósdóttur flugfreyju
Ásdís Sverrisdóttir flugfreyja, barnabarn Sigurðar Magnússonar blaðafulltrúa Loftleiða og farþega í fyrstu ferðinni
Halldóra Finnbjörnsdóttir flugfreyja, dóttir Finnbjörns Þorvaldssonar, skrifstofustjóra Loftleiða
Stefanía Ástrós Benónýsdóttir flugfreyja, barnabarn Alfreðs Elíassonar flugstjóra.
 
Áhöfninni voru afhent blóm í tilefni dagsins og var myndin tekin á Keflavíkurflugvelli í dag fyrir brottför afmælisflugsins. Hin myndin var tekin þegar fulltrúar borgarstjórnar New York tóku á móti áhöfninni og forystumönnum félagsins 26. Ágúst 1948.