Árlegur fundur með umboðsaðilum Icelandair
Í síðustu viku var haldinn árlegur fundur umboðsaðila Icelandair á "fjarlægari" mörkuðum eða heimshlutum.
Icelandair hefur eigin sölu- og markaðsskrifstofur á öllum sínum helstu mörkuðum, t.d. í Bandaríkjunum og Kanada, á Norðurlöndum, Bretlandi og á meginlandi Evrópu. Þar vinna starfsmenn Icelandair að því að kynna Ísland sem ferðamannastað og selja flugferðir hingað.
Þar að auki hefur Icelandair á sínum snærum umboðsaðila,( General Sales Agents,) í mörgum löndum. Það var sá hópur sem hittist í dag. Á fundinum voru umboðsmenn Icelandair í Kóreu,Indlandi,Taílandi,Hong Kong, Taiwan, Japan, Kína, Ísrael, Póllandi, Tékkalandi og Finnlandi.
Í dag kom fram að mikill hugur er í fólkinu - og bjartsýni á að auka megi sölu Íslandsferða á næsta ári. Áhrif efnahagskreppunnar á heiminum hafa náð til ferðaþjónustu um allt, þar á meðal í Asíu, en nú sjást greinileg merki um bata og aukinn ferðahug. Þessi hópur umboðsmanna hefur mikið að segja um vöruþróun á viðkomandi mörkuðum, t.d. um það hvernig eigi að byggja upp norðurljósaferðir, spa (heilsutengdar) ferðir o.s.frv. og kynna þessa möguleika í viðkomandi löndum.
Frá þeim mörkuðum þar sem umboðsmennirnir starfa koma tugir þúsunda ferðamanna til landsins á hverju ári og starf þeirra er mjög mikilvægt. Mjög mismunandi er frá hverskonar fyrirtækjum þau koma, sumstaðar er um að ræða lítil fjölskyldufyrirtæki, en á öðrum mörkuðum risastór alhliða ferðaþjónustufyrirtæki.
Asíumarkaðirnir t.d. í Kína, Japan, Kóreu og Indlandi eru risastórir, og fjöldi ferðamanna frá þessum löndum til Evrópu er gríðarlegur. Eitt af verkefnunum sem þessi hópur vinnur að hvetja þá sem á annað borð eru á leið til Evrópu að bæta Íslandi við í ferðinni.