Fyrsta flug Icelandair til Denver í Colorado 10 maí
Beint áætlunarflug Icelandair til Denver í Colorado hófst 10. maí. Flogið verður fjórum sinnum í viku allt árið.
Þetta beina flug frá Íslandi hefur vakið mikla athygli í Denver og til marks um það hefur borgarstjórinn, Michael Hancock, ásamt viðskiptasendinefnd, dvalið hér á landi frá því á þriðjudag. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, verður meðal farþega í fyrsta fluginu og mun taka þátt í dagskrá og Íslandskynningu í Denver um helgina.
„Denver í Colorado hefur áhugaverða sérstöðu og hentar starfsemi Icelandair vel. Í fyrsta lagi er á þessu svæði töluverð velmegun, menntunarstig er hátt og áhugi á náttúru og útivist er meiri en víðast hvar annars staðar í Bandaríkjunum. Við ætlum okkur því að ná fjölda ferðamanna til Íslands frá þessu svæði. Í öðru lagi er þetta spennandi áfangastaður, m.a. vegna stórbrotinnar náttúru og hinna heimsþekktu skíðasvæða í Aspen og Vail. Það gerir okkur kleift að fljúga jafn mikið á veturna og á sumrin til Denver, sem er óvenjulegt og mjög jákvætt. Í þriðja lagi er ljóst að flug okkar, með tengingu á Íslandi, er frábær kostur fyrir þá sem þurfa að ferðast milli Denver og ýmissa Evrópuborga. Lítið sem ekkert beint flug er frá Denver til Evrópu þó svo rannsóknir sýni mikið farþegastreymi og við ætlum okkur að ná í sneið af þeirri köku“, segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair.
Denver í Colorado er spennandi menningarborg að sumri sem vetri. Hún stendur nánast í Bandaríkjunum miðjum við rætur Klettafjalla þar sem eru einstök útivistarsvæði og einhver bestu skíðasvæði veraldar. Þar eru sólardagar yfir 300 á ári. Denver er mikil miðstöð samgangna og flugvöllurinn er sá tíundi stærsti í heimi og fimmti stærsti í Bandaríkjunum. Flugtími milli Íslands og Denver er um sjö og hálf klukkustund.
Denver Colorado er níunda borgin sem Icelandair flýgur áætlunarflug til í Norður Ameríku. Hinar borgirnar eru New York, Boston, Seattle, Minneapolis, Washington og Orlando í Bandaríkjunum, og Toronto og Halifax í Kanada.
Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2012 er sú stærsta í sögu félagsins og um 14% umfangsmeiri en á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012, en voru tæplega 1,8 milljónir á árinu 2011. Alls verða 16 Boeing 757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins í sumar, tveimur fleiri en á síðasta ári. Flugvélar félagsins munu taka á loft allt að 400 sinnum á viku í sumar og farþegafjöldinn mun verða um 10 þúsund manns á sólarhring þegar mest lætur.
„ Bókanir fyrir sumarið eru sterkar og aukningin á fyrstu mánuðum ársins hefur verið góð. Okkur er full alvara þegar við segjumst ætla að auka ferðamannastraum utan háannatímans og það hefur m.a. haft áhrif á þá ákvörðun að hefja flug til og frá Denver í Colorado allt árið um kring“, segir Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair.
„Icelandair á 75 ára afmæli á árinu og það er ánægjulegt að fagna afmælisárinu með stærstu og umfangsmestu flugáætluninni í þessari merku sögu. Það er mikið umrót í starfsumhverfi okkar og nægir að nefna efnahagsmálin, náttúruhamfarir og heimsmarkaðsverð á eldsneyti í því sambandi, en starfsfólki Icelandair hér heima og erlendis hefur tekist að vinna mjög vel úr aðstæðum og fyrirtækið stendur traustum fótum og er reiðubúið í frekari vöxt“, segir Birkir.
Auk fjögurra vikulegra ferða til nýja áfangastaðarins, Denver í Colorado, er Icelandair í ár að fjölga ferðum til Washington og Seattle í Bandaríkjunum, til allra höfuðborga Norðurlandanna og Þrándheims, Stavanger og Bergen í Noregi, til Billund í Danmörku, til Munchen, Amsterdam, Brussel og Parísar á meginlandi Evrópu og til Manchester og Glasgow á Bretlandseyjum. Alls eru áfangastaðirnir 31 á árinu. Vöxturinn yfir vetrarmánuðina er þó hlutfallslega meiri en yfir sumarið og það er liður í þeirri stefnu félagsins jafna hina miklu árstíðarsveiflu sem er í rekstrinum og fjölga ferðamönnum utan annatímans.
Icelandair byggir leiðakerfi sitt á staðsetningu landsins mitt á milli Norður-Evrópu og Norður-Ameríku. Með leiðakerfinu er Icelandair unnt að þjóna þremur mörkuðum; heimamarkaðinum á Íslandi, ferðamannamarkaðinum til Íslands og alþjóðlega markaðinum milli Evrópu og Norður-Ameríku.
Frétt frá 14. September 2011:
Borgarstjóri Denver segir flug Icelandair hafa 3.3 milljarða króna efnahagsáhrif
Ríkisstjóri Coloradofylkis í Bandaríkjunum, John Hickenlooper, og borgarstjórinn í Denver, Michael Hancock, héldu í morgun fréttamannafund á alþjóðaflugvellinum í Denver til að tilkynna áætlunarflug Icelandair til borgarinnar. Viðstaddir voru einnig Kim Day, framkvæmdastjóri flugvallarins, Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs og Þorsteinn Egilsson, svæðisstjóri í Norður-Ameríku.
Ákvörðun Icelandair um að hefja heilsársflug til borgarinnar á næsta ári vekur mikla athygli í Denver og í máli stjórnmálaleiðtoganna kom fram að þeir telja töluverð líkindi með Denver og Íslandi þegar kemur að flugsamgöngum, á þann hátt að Denver er stór tengimiðstöð fyrir flug víðsvegar um Bandaríkin á meðan Ísland er tengistöð fyrir áframhaldandi flug til allra helstu Evrópuborga. Með beinu flugi á milli Denver og Íslands skapist mikil tækifæri. Aðeins tvö önnur flugfélög en Icelandair, Lufthansa og BA, bjóða upp á flug milli Denver og Evrópu.
Michael Hancock borgarstjóri Denver sagði á blaðamannafundinum í morgun að koma Icelandair hefði mikil og jákvæð áhrif á efnahagslífið í Colorado. Hann sagði þau áhrif nema um 28 milljónum dollara, eða 3,3 milljörðum króna. Um 300 störf yrðu til og þar af 33 bein ný störf. Flug Icelandair muni skapa sem nemur um einum milljarði króna í beinar launatekjur og um 2,2 milljarða króna í almennri neyslu ferðamanna í ríkinu.
John Hickenlooper, ríkisstjóri Colorado sagði ferðaþjónustuna aðra stærstu atvinnugrein Coloradofylkis og helstu vaxtargrein fylkisins. Um 50 þúsund manns starfa í tengslum við ferðaiðnaðinn í ríkinu. Hann sagði náttúrufegurð, frábært loftslag og skíðasvæðin helsta aðdráttarafl Colorado auk þess sem borgin er margverðlaunuð sem ráðstefnuborg.