Hamborgarar í háloftunum | Icelandair
Pingdom Check
07/17/2012 | 12:00 AM

Hamborgarar í háloftunum

Farþegar Icelandair njóta þess nú að geta fengið sér hamborgara frá Hamborgarafabrikkunni um borð í vélum Icelandair en samstarfssamningur þessara aðila var undirritaður fyrir skemmstu. Um er að ræða nýja vöru, Fabrikkusmáborgara, sem þróaðir hafa verið í samstarfi Hamborgarafabrikkunnar og Icelandair síðustu mánuði.

„Þessi skemmtilega nýjung er hluti af þeirri viðleitni að efla þjónustu okkar og vöruframboð um borð,“ segir Rannveig Eir Einarsdóttir, forstöðumaður flugþjónustudeildar Icelandair. „Matur er mikilvægur hluti af upplifuninni um borð, ekki síður en fullkomið afþreyingarkerfi og mikið sætabil. Það er líka gaman að geta boðið farþegum, erlendum og innlendum, upp á hamborgara frá þessum vinsæla stað.“

Jóhannes Ásbjörnsson og Sigmar Vilhjálmsson eru tveir eigenda Hamborgarafabrikkunnar: „Þetta er í raun smækkuð útgáfa af Fabrikkuborgaranum sem við kjósum að kalla Fabrikkusmáborgara. Helstu kostirnir eru þeir að það er auðvelt og skemmtilegt að borða þá á flugi, og svo eru þeir að sjálfsögðu einstaklega bragðgóðir. Við á Fabrikkunni erum spenntir fyrir samstarfinu og teljum að það geti orðið farsælt.“

Fabrikkusmáborgararnir eru litlir og gómsætir, úr hágæða ungnautakjöti, og að sjálfsögðu bornir fram í ferköntuðu Fabrikkubrauði. Hægt er að velja um tvo smáborgara eða fjóra ásamt Fabrikkusósu og gosdrykk að eigin vali.