Icelandair bætir 200 flugum við vetraráætlun | Icelandair
Pingdom Check
06/30/2010 | 12:00 AM

Icelandair bætir 200 flugum við vetraráætlun

Áætlun Icelandair í vetur verður um 14% umfangsmeiri en hún var síðasta vetur. Icelandair mun fljúga til alls 15 áfangastaða austan hafs og vestan. Að meðaltali verða 82 flug frá Íslandi í viku á tímabilinu frá nóvember og út mars, eða 10 fleiri en á síðasta vetri. Á fimm mánaða tímabili, í nóvember, desember, janúar og febrúar og mars verður flugum fjölgað um 200 í heild. Flogið verður til 11 borga í Evrópu og 4 borga í Norður-Ameríku. 

Helsta breytingin frá fyrra vetri er að flugferðum er fjölgað bæði til borga Evrópu, svo sem Parísar, Frankfurt, Amsterdam og Kaupmannahafnar og einnig til Seattle, New York og Orlando í Bandaríkjunum. Að auki verður flogið til Helsinki fram yfir áramót, sem er 2 mánuðum lengur en undanfarin ár. Að lokum verður flogið til Munchen í Þýskalandi frá lokum janúar fram til mars, en það er í fyrsta sinn sem félagið flýgur til Munchen á þessum tíma árs. Einnig er  flug til fjölmargra áfangastaða aukið bæði nú haust og næsta vor, þ.e. í október og apríl/maí til þess að lengja ferðamannatímann.

"Þrátt fyrir miklar sveiflur í rekstrarumhverfinu er útlitið nokkuð bjart og við erum að auka töluvert við framboðið milli ára", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. "Eftir að efnahags- og gengishrunið á árinu 2008 stöðvaði nánast utanferðir Íslendinga breyttum við áherslum hratt og náðum að auka mjög hlutfall erlendra ferðamanna í vélum okkar í staðinn. Eldgosið í vor dró hins vegar mjög úr bókunum þeirra tímabundið en  Norður-Atlantshafsmarkaðurinn hefur verið sterkur. Nú sjáum við að bókanir Íslendinga til útlanda eru að aukast og bókanir til landsins í haust lofa góðu í kjölfar kynningarátaksins Inspired by Iceland. Þessi mikli sveigjanleiki Icelandair og geta til þess að laga sig að sveiflum gefur okkur tækifæri til þess að bæta nú við framboðið", segir Birkir.

Í vetur mun Icelandair fljúga til höfuðborga Norðurlanda, Kaupmannahafnar, Osló, Stokkhólms og Helsinki, til London, Manchester og Glasgow  í Bretlandi og til Amsterdam, Frankfurt, Parísar og Munchen á meginlandi Evrópu. Áfangastaðir vestanhafs eru Boston, New York, Orlando og Seattle. Nú í sumar flýgur Icelandair auk þess til borganna Stavanger, Bergen, Þrándheims Helsinki, Brussel, Berlín, Dusseldorf, Munchen, Barcelona, Madrid, Mílanó, Halifax, Toronto og Minneapolis.