Icelandair besti sölu- og þjónustuvefurinn | Icelandair
Pingdom Check
02/05/2009 | 12:00 AM

Icelandair besti sölu- og þjónustuvefurinn

Icelandair fær verðlaun fyrir besta sölu- og þjónustuvefinn

Vefir Icelandair unnu til verðlauna á Vefverðlaununum 2008 þann 30. janúar síðastliðinn. Dómnefnd Samtaka vefiðnaðarins völdu Icelandair.is Besta sölu- og þjónustuvefinn. Önnur fyrirtæki sem komust í úrslit í þessum flokki voru Borgarleikhúsið, Flugfélag Íslands, Miði.is og Síminn. Í umsögn dómnefndar segir: „Fyrir stór fyrirtæki getur verið snúið að gera öllum þjónustu- og vöruflokkum jafn hátt undir höfði. Þetta hefur þó tekist gríðarlega vel á Icelandair.is. Vefurinn er mjög hnitmiðaður og gott skipulag leiðir notandann auðveldlega að því sem er að leitað. Glæsilegur mobile vefur fylgir þessari metnaðarfullu endurhönnun sem við teljum fyrirtækinu mjög til sóma.“ Vefir Icelandair voru einnig tilnefndir í flokknum Besta útlit og viðmót.
„Það er ánægjulegt að fá svo góðan dóm um sölu- og þjónustuvef Icelandair,“ segir Guðmundur Óskarsson Forstöðumaður Markaðs og Viðskiptaþróunar hjá Icelandair. „Mikil fjárfesting og stefnumótuð vinna er á bak við vef á borð við Icelandair.is. Ekki má heldur gleyma miklum metnaði sem er verðlaunaður með Vefverðlaununum en ekki síður með góðum árangri í sölu og þjónustu í daglegum rekstri Icelandair.“

Vefur Icelandair hefur á undanförnum árum fengið fjölmargar viðurkenningar, hér heima og erlendis.
Samtök vefiðnaðarins sjá um framkvæmd Vefverðlaunanna 2008 í samstarfi við ÍMARK en vefverðlaunin voru fyrst veitt árið 2000.
www.icelandair.com