Icelandair og Íslenska auglýsingastofan undirrita nýjan samstarfssamning til næstu þriggja ára | Icelandair
Pingdom Check
03/31/2016 | 12:00 AM

Icelandair og Íslenska auglýsingastofan undirrita nýjan samstarfssamning til næstu þriggja ára

Icelandair og Íslenska auglýsingastofan hafa skrifað undir samning um áframhaldandi samstarf til næstu þriggja ára. Fyrirtækin hafa átt náið og árangursríkt samstarf á sviði markaðsmála í meira en aldarfjórðung. Samvinna fyrirtækjanna hefur mörg undanfarin ár skilað fjölda auglýsingaverðlauna, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna íslensku markaðsverðlaunin fyrir markaðsfyrirtæki ársins og markaðsmann ársins, fjölda tilnefninga og lúðra á Íslenska markaðsdeginum, Epica-verðlaun og fjölda annarra viðurkenninga.

Undanfarin fimm ár hefur Icelandair jafnframt orðið hlutskarpast í árlegri könnun Ímark og Capacent Gallup, meðal stjórnenda 300 stærstu fyrirtækja landsins, við val á því fyrirtæki sem þykir skara fram úr í markaðsmálum á Íslandi.

„Icelandair hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra fyrirtækja hvað viðkemur markaðsstarfi,“ segir Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku. „Markaðsmál skipa veigamikinn sess hjá Icelandair. Sýn stjórnenda á verkefnið  hefur verið sterk og markmiðasetning og stefna skýr. Við hjá Íslensku hlökkum til að starfa áfram með Icelandair með það að leiðarljósi að gera enn betur.“

„Íslensk ferðaþjónusta hefur vaxið mjög á síðustu árum og er nú orðin ein af grunnstoðunum í íslensku efnahagslífi. Icelandair hefur gegnt þýðingarmiklu hlutverki í þeirri þróun,“ segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. „Við hjá Icelandair leggjum mikla áherslu á öflugt og markvisst markaðsstarf á öllum mörkuðum okkar. Samstarfið við Íslensku hefur verið farsælt og náið. Þekking Íslensku og víðtæk reynsla af markaðsstarfi hér heima og erlendis er mikilvæg fyrir áframhaldandi markaðssókn og uppbyggingu vörumerkis Icelandair til framtíðar.”

Á myndinni má sjá Helga Má Björgvinsson, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair, og Hjalta Jónsson, framkvæmdastjóra Íslensku auglýsingastofunnar, við undirritun samningsins.