Icelandair stundvísasta Evrópuflugfélagið
Icelandair var stundvísast allra evrópskra flugfélaga sem eru í AEA, Evrópusambandi flugfélaga, í alþjóðaflugi í september.
Icelandair var stundvísast allra í langflugi, þ.e. flugi á lengri flugleiðum, í septembermánuði, með 92,5% stundvísi. Icelandair er einnig í efsta sæti í flugi á styttri og meðallöngum flugleiðum með 93,9% stundvísi. Samanlagt er stundvísin því 93,5% og er félagið númer eitt af 25 alþjóðlegum flugfélögum í þessari mælingu.
Þá er Icelandair ennfremur í efsta sæti í langflugi það sem af er á árinu 2012 með 90,7% stundvísi. Evrópusamband flugfélaga (AEA) birtir reglulega gögn um stundvísi flugfélaga innan sinna raða.
"Góð stundvísi er sem fyrr lykilatriði í þjónustu Icelandair og það er alltaf jafn ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við stöndum framarlega á þessu sviði í samanburði við öll stærstu og þekktustu flugfélög Evrópu. Við höfum stækkað leiðakerfi og tengistöð okkar á Keflavíkurflugvelli mikið að undanförnu og starfsfólkið okkar hefur leyst það verkefni frábærlega", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.