Stærsta ferðakaupstefnan, Mid-Atlantic, haldin í 20. sinn
Ferðakaupstefnan Mid-Atlantic 2012, sem hefst í Laugardalshöll á morgun er stærsta ferðakaupstefnan sem haldin er á Íslandi. Hún er nú haldin í 20. sinn.
Kaupstefnan er haldin á vegum Icelandair til þess að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í þeim tilgangi að styrkja og auka ferðamannastraum til Íslands. Hún er árlegur lykilviðburður í ferðaþjónustunni. Hún stendur nú yfir dagana 2.-5. febrúar og fer fram í Laugardalshöllinni.
"Við fögnum því nú að halda Mid-Atlantic í 20. sinn á 75. afmælisári Icelandair og það er mikið ánægjuefni að kaupstefnan er sú langstærsta frá upphafi og nýir þátttakendur víða að sækjast eftir þátttöku", segir Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair.
Fulltrúar á Mid-Atlantic eru nú um 650 alls frá 15 löndum. Að þessu sinni koma um 420 erlendir fulltrúar frá þeim löndum sem hafa mikil ferðaþjónustutengsl við Ísland í Evrópu og Norður-Ameríku. Sérstaka athygli vekur jafnan þegar nýir aðilar kynna sig til leiks og í ár verða meðal þátttakenda fjölmennar sendinefndir frá Frakklandi og frá Alaska og Denver í Colorado sem er nýr heilsárs áfangastaður Icelandair.
Þátttakendur eru fulltrúar ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, skemmtigarða og margvíslegra annarra ferðaþjónustufyrirtækja og að auki taka þátt ferðamálaráð á Norðurlöndum og ferðamálaráð þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku.
“Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt samfélag hefur aukist og það er áríðandi fyrir okkur að grípa öll þau viðskiptatækifæri sem bjóðast. Þau tengsl sem myndast á Mid-Atlantic eru ein af undirstöðum í ferðþjónustunni. Sá aukni áhugi sem við finnum erlendis frá er þess vegna mjög ánægjulegur. Þetta er einn helsti vettvangur fyrir íslenska ferðaþjónustu að selja og kynna sína vöru beint fyrir kaupendum. En einnig eru hér t.d.bandarísk fyrirtæki að kaupa ferðaþjónustu frá Norður-Evrópu sem þeir síðan selja neytendum vestra og öfugt. Ísland er miðpunkturinn í öllu þessu starfi, líkt og í leiðarkerfi okkar, en á kaupstefnunni eru kynningarfundir, sölusýningar, stuttar ferðir og þemakvöld,”segir Helgi Már.
Einar Örn Benediktsson, formaður menninga- og ferðamálaráðs Reykjavíkur setur Mid-Atlantic kaupstefnuna í Reykjavík Hilton Nordica í kvöld, fimmtudagskvöld 2. febrúar klukkan 19.00