Flottur stíll og góð hönnun er auðkenni Montreal (hún er eftir allt saman hönnunarborg Unesco) og markaðir geyma oft frábæran mat, tísku og fleira. Marché Bonsecours er sögulegt kennileiti sem teygir úr sér í gamla bænum. Þar eru margar handverksverslanir sem selja aðeins vörur framleiddar í Quebec. Avenue du Mont-Royal er stórkostlegur staður til að eyða deginum og gaman er að skoða flottar verslanir, fjölbreytt mannlífið og fjölda bara og kaffihúsa.
Veturnir geta verið harðir í Montreal sem gæti útskýrt af hverju sumar verslunargötur eru neðanjarðar. Réso er þekkt undir nokkrum heitum (þar á meðal sem hin skuggalega La Ville Souterraine, eða neðanjarðarborgin). Þetta er neðanjarðarkerfi á nokkrum hæðum sem samanstendur af göngum og stigum og tengir saman verslunarmiðstöðvar, neðanjarðarlestir, skrifstofuhúsnæði, hótel og margt fleira. Allt í allt er þetta um 32 km og við mælum því með að þægilegir gönguskór fái að fylgja með þegar pakkað er niður!